Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og vinnumarkaðsráðherra styrkir Pepp til tveggja verkefna

Þann 4. júlí sl.  opnaði Pepp Ísland, grasrót fólks í fátækt sem starfar innan EAPN (The European Anti-Poverty Network) Fjölskyldu- og fjölmenningarsetur í Arnarbakka í Breiðholti. Við opnunina veitti félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félaginu tvo verkefnastyrki.

Annars vegar er um að ræða skipulagða samveru  fyrir barnafjölskyldur í sumar og er það meðal annars unnið í samstarfi við TINNU verkefnið. TINNA er á vegum Reykjavíkurborgar og miðar sérstaklega að einstæðum foreldrum í Reykjavík sem eru utan vinnumarkaðar og glíma við langvarandi félagslegan vanda og þurfa aðstoð við að komast í virkni og styrkja félagsleg tengsl.

Hins vegar er verkefni sem lýtur að virkni og valdeflingu fólks sem býr við fátækt og félagslega einangrun.  Markmið þess er að rjúfa félagslega einangrun þess hóps sem glímir við kvíða og þunglyndi með því að bjóða upp á samveru, aukna virkni, skipulagða hreyfingu o.fl. Enn fremur er verkefninu ætlað að styðja við sjálfboðaliðahóp samtakanna þar sem unnið er með sjálfsstyrkingu í hópastarfi.

Verkefnunum er m.a. ætlað að mæta þeim fjölmörgu áskorunum sem fylgdu heimsfaraldrinum en í skýrslu OECD um áhrif COVID-19 kemur fram að félagslegir og fjárhagslegir erfiðleikar stigmögnuðust hjá viðkvæmum hópum í faraldrinum og voru stjórnvöld hvött til þess að leggja sérstaka áherslu á mótun aðgerða sem stuðla meðal annars að auknum tækifærum og virkari þátttöku viðkvæmra hópa í samfélaginu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson:

Félagasamtök eru hreyfiafl í samfélaginu og afskaplega mikilvæg í að vinna að betri og réttlátari heimi. Það verður spennandi að sjá hvernig þessi verkefni munu ganga. Ég óska Pepp samtökunum velfarnaðar í nýjum húsakynnum og hlakka til að fylgjast áfram með því góða og öfluga starfi sem samtökin vinna í þágu þeirra sem á þurfa að halda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira