Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Einföldun regluverks - reglur um niðurgreiðslur umhverfisvænnar orkuöflunar í samráðsgátt

Vatnapúsl - myndHugi Ólafsson
Alþingi samþykkti þann 15. júní sl. frumvarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, um niðurgreiðslur til umhverfisvænnar orkuöflunar.

Um er að ræða breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar sem hafa það að markmiði að einfalda kerfi styrkveitinga til þeirra sem njóta niðurgreiddrar rafhitunar og vilja taka upp umhverfisvæna orkuöflun.

„Það er alltaf ánægjulegt að geta einfaldað regluverk enda er það markmið okkar það sé ekki flókið fyrir íbúa landsins að eiga samskipti við stjórnvöld. Einnig styðja breytingarnar mjög við markmið stjórnvalda um orkuskipti. Ég vonast til að enn fleiri en áður nýti sér þessa leið til að sækja um niðurgreiðslur vegna umhverfisvænnar orkuöflunar..“ segir Guðlaugur Þór.

Samkvæmt lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar geta íbúar á svæðum sem ekki eiga kost á fullri hitun með jarðvarma sótt um styrk til Orkustofnunar til að taka upp umhverfisvæna orkuöflun og/eða ráðast í aðgerðir sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun. Umsóknarferlið hefur hins vegar verið flókið, þar sem krafa hefur m.a. verið um að notandi leggi fram upplýsingar um orkunotkun síðustu fimm ára, meti sjálfur tæknilegan ávinning framkvæmdarinnar, lækki niðurgreiðslustuðul sinn út frá eigin áhættumati og meti aukna raforkunotkun til framtíðar til að forðast óþarfa kostnað. Nýsamþykkt breyting á lögunum leiðir til þeirrar einföldunar að niðurgreiðslustyrkur skuli nema helmingi af kostnaði við kaup á búnaði til umhverfisvænnar orkuöflunar, svo sem varmadælu, og að endurgreiðslur notenda verði ekki skertar.

Gera má ráð fyrir að breyting á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar leiði til þess að fleiri umsóknir berist stjórnvöldum um niðurgreiðslur vegna umhverfisvænnar orkuöflunar, svo sem varmadæla. Slíkar niðurgreiðslur leiða til þess að mótframlag ríkisins lækkar vegna minni raforkunotkunar notanda auk þess sem varmadælur skila aukinni orku í kerfið sem stuðlar að orkuskiptum.

Í samráðsgátt stjórnvalda hafa nú verið birt drög að breytingu á reglugerð um framkvæmd laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar þar sem reglugerðinni breytt til samræmis við framangreindar lagabreytingar, auk annarra minni háttar breytinga.

Lög um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, lögum um virðisaukaskatt og lögum um tekjuskatt (umhverfisvæn orkuöflun).

Drög að breytingu á reglugerð um framkvæmd laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar í samráðsgátt stjórnvalda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum