Hoppa yfir valmynd
13. júlí 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra skipar stjórn Landspítala

Landspítali - myndHeilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra hefur skipað stjórn Landspítala til tveggja ára. Með lögum nr. 44/2022 var fært nýtt ákvæði inn í lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Samkvæmt 8. gr laganna skipar ráðherra fimm menn í stjórn Landspítala og tvo til vara, til tveggja ára í senn. Skal einn skipaður formaður stjórnar og annar varaformaður. Jafnframt skal ráðherra skipa tvo áheyrnarfulltrúa úr hópi starfsmanna Landspítalans með málfrelsi og tillögurétt, án atkvæðisréttar.

Markmiðið er að styrkja stöðu og hlutverk Landspítala sem mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Stjórninni er ætlað að marka Landspítala langtímastefnu í samræmi við stefnumörkun ráðherra og hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum ásamt því að styðja við faglegan rekstur spítalans. Í lögunum er kveðið á um að í stjórninni skuli sitja einstaklingar sem hafa þekkingu á rekstri og áætlanagerð, á heilbrigðisþjónustu, vísindarannsóknum á heilbrigðissviði og menntun heilbrigðisstétta, og á opinberri stjórnsýslu og reglum stjórnsýsluréttar.

Samhliða skipan stjórnar hefur ráðherra kallað eftir sjö tilnefningum fulltrúa í notendaráð frá sjúklingasamtökum. Notendaráð er nýmæli hér á landi og skulu forstjórar og stjórnir heilbrigðisstofnana, þar sem við á, hafa samráð við notendaráð til að tryggja að sjónarmið notenda séu höfð til hliðsjónar við ákvarðanatöku um atriði er varða hagsmuni sjúklinga sem njóta þjónustu heilbrigðisstofnana. Forstjóra og stjórn heilbrigðisstofnunar, þar sem við á, ber einnig að leita álits fagráðs um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu og skipulag heilbrigðisstofnunar.

Nýja stjórn skipa:
Björn Zoëga, forstjóri og bæklunarskurðlæknir, formaður stjórnar.
Gunnar Einarsson, fv. bæjarstjóri og doktor í stjórnun og menntunarfræðum. 
Höskuldur H. Ólafsson, ráðgjafi og viðskiptafræðingur.
Ingileif Jónsdóttir,  deildarstjóri smit- og bólgusjúkdóma hjá Íslenskri erfðagreiningu og prófessor í ónæmisfræði við Háskóla Íslands.
Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri með meistarapróf í stjórnun og stefnumótun, varaformaður stjórnar.

Varamenn eru: 
Birgir Gunnarsson, framkvæmdastjóri og rekstrarfræðingur.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins með meistarapróf í mannauðsstjórnun.  

Áheyrnarfulltrúar starfsmanna eru: 
Marta Jóns Hjördísardóttir, hjúkrunarfræðingur. 
Örvar Gunnarsson, krabbameinslæknir.  

Varamaður áheyrnarfulltrúa er:
Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, náttúrufræðingur.

Björn Zoëga, formaður nýrrar stjórnar Landspítalans og forstjóri Karólínska-háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi, hefur víðtæka þekkingu og reynslu af rekstri heilbrigðisstofnana bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Hann telur að nýtt fyrirkomulag tryggi meiri rýni og þar með betur ígrundaðar ákvarðanir. 

„Ég er afar þakklátur því trausti sem mér er sýnt með þessari skipan. Ég ber hag íslensks heilbrigðiskerfis fyrir brjósti og er sannfærður um að reynsla mín muni nýtast vel í þeim verkefnum sem eru fram undan Helstu spítalar Norðurlandanna gera ráð fyrir því að stjórn veiti forstjóra og stjórnendum á spítölum stuðning og rýni ákvarðanatöku. Slíkt fyrirkomulag er mikilvægt, ekki aðeins út frá rekstri heldur út frá hagsmunum sjúklinga, starfsmanna og samfélagsins. Ég er sannfærður um að það verður einnig til heilla hér á landi.“
Björn Zoëga, formaður stjórnar Landspítalans 

,,Ég er sannfærður um að þessi nýja stjórn muni styrkja Landspítalann.  Samsetning hennar endurspeglar þá breidd og þekkingu sem þarf til að styðja vel við spítalann í allri stefnumótun, rekstri og ákvarðanatöku. Það skilar sér svo í bættu starfsumhverfi, þjónustu og getu kerfisins til að takast á við framtíðaráskoranir.”
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum