Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2022 Innviðaráðuneytið

Drög að reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra í samráðsgátt

Drög að reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 11. ágúst 2022.

Reglugerðardrögin innihalda lýsingar á umferðarmerkjum, umferðarljósum, hljóðmerkjum og öðrum merkjum á eða við veg til stjórnunar á eða leiðbeiningar fyrir umferð. Gerðar eru talsverðar breytingar á flokkunarkerfi umferðarmerkja, m.a. til einföldunar og í því skyni að samræma við alþjóðlega staðla.

Í drögunum er lagt til að tekin verði upp á fimmta tug nýrra umferðarmerkja, á annan tug nýrra yfirborðsmerkinga og tvenn ný umferðarljós. Þá er lagt til að gera breytingar á útliti á fimmta tug merkja og að fella á brott á sjöunda tug merkja. Markmiðið er að merking umferðarmerkja verði gerð skýrari, orðalag samræmt og tilmæli til veghaldara færð í viðauka. Í viðaukum er fjallað um hvernig veghaldari skuli nota umferðarmerki, þar á meðal um kröfur til tæknilegrar útfærslu og uppsetningar.

Innviðaráðherra skipaði starfshóp til að vinna reglugerðardrögin. Hópurinn var skipaður fulltrúa Vegagerðarinnar sem leiddi hópinn og fulltrúum ráðuneytisins, Samgöngustofu, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Við vinnuna hafði starfshópurinn m.a. hliðsjón af ákvæðum sáttmála Sameinuðu þjóðanna um umferðarmerki og umferðarljós frá 1968 auk þess sem litið var til regluverks á öðrum Norðurlöndum.

Flokkun umferðarmerkja og helstu breytingar

 • Viðvörunarmerki (100)
  • Fjögur ný merki eru kynnt; til að vara við holum, skertri sýn vegna veðurs, umferðartöfum og slysi.
  • Fleiri myndmerki verða í boði til að vara við dýrum í umferð, m.a. nýtt merki með kanínum.
 • Forgangsmerki (200)
  • Kynnt er nýtt merki fyrir fléttuakstur.
 • Bannmerki (300)
  • Flokkur bannmerkja tekur óverulegum breytingum frá gildandi reglugerð.
 • Boðmerki (400)
  • Flokkur boðmerkja tekur minniháttar breytingum frá gildandi reglugerð.
 • Sérreglumerki (500)
  • Þetta er nýr flokkur með merkjum sem ætlað er að mæla með bindandi hætt fyrir um sérstakar reglur eða takmarkanir fyrir umferð, aðrar en með forgangs, bann- eða boðmerkjum.
  • Ný merki eru kynnt fyrir göngugötur, annars vegar göngugata og göngugata endar
  • Einnig lagt að skoða upptöku merkja fyrir hjólagötur, annars vegar hjólagata og hjólagata endar.
  • Nýtt merki er kynnt fyrir gjaldskyld bifreiðastæði og svæðismerkingar biðreiðastæða.
 • Upplýsingamerki (600)
  • Undir þessum flokki verða eingöngu merki til upplýsinga fyrir vegfarendur en kveða ekki á um skyldu eða bann við tiltekinni háttsemi. Af þeim sökum færast þó nokkur merki úr gildandi reglugerð í flokk sérreglumerkja.
  • Ný merki eru kynnt fyrir meðalhraðaeftirlit, eftirlitsmyndavél, rafræna gjaldtöku og neyðarútgang.
  • Fleiri útfærslur eru kynntar af merki fyrir botngötu.
 • Vegvísar og þjónustumerki (700).
  • Þessi merki sameinast nú í einum flokki.
  • Ný merki eru kynnt, t.d. ferðamannastaður með vörðu og staður á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.
 • Undirmerki (800)
  • Nokkur ný merki kynnt, s.s. um ummferð hjólandi vegfarenda í báðar akstursáttir, umferð hópferðabifreiða í almenningsakstri úr báðum áttum og hált í bleytu.
 • Önnur merki (900)
  • Óverulegar breytingar eru gerðar á flokki annarra merkja.
 • Yfirborðsmerkingar (1000)
  • Gerðar eru tilllögur um nýjar yfirborðsmerkingar tengdar hjólreiðum, hjólabox, hjólaþverun og hjólavísar. 
 • Umferðarljós og hljóðmerki (1100)
  • Lagt er til að taka upp ný umferðarljós fyrir hjólandi vegfarendur.
  • Veitt er heimild til að sýna bæði reiðhjól og mann saman á umferðarljósi.

Nánari upplýsingar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira