Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Sýndarveruleiki nýttur til að fræða ungmenni um loftslagsmál

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, heimsótti íslenska nýsköpunarfyrirtækið Gagarín á dögunum ásamt fjármálaráðherra.

Gagarín sérhæfir sig í hönnun og gerð kynningarefnis fyrir söfn og sýningar af ýmsu tagi. Í framhaldi af Nýsköpunarvikunni sem fram fór í maí var ráðherrum boðið að heimsækja fyrirtækið þar sem markmið heimsóknarinnar var að kynna þróunarverkefnið Astrid sem eru upplifunar- og fræðslulausnir fyrir unglinga um loftslagsmál. Verkefnið er unnið í samstarfi við helstu rannsókna-, vísinda- og menntastofnanir landsins og snýr m.a. að þróun fræðsluefnis í sýndarveruleika um loftslagsmál.

Umræða um loftslagsmál verður sífellt háværari og vilji til breytinga því meiri, sérstaklega hjá yngri kynslóðum. Með Astrid-verkefninu leitast Gagarín eftir því að veita ungmennum réttu tólin til að takast á við loftslagsáskoranir og hefur fyrirtækið í því skyni lagt áherslu á samvinnu þekkingar, leiðsagnar og umhugsunar sem lykilþátta árangursríkra aðgerða sem hvetja frekar en að letja þegar kemur að loftslagsaðgerðum. Til að mynda er svokallaður Garden of Choices búnaður hluti af Astrid-verkefninu, en það er hlutverkaleikur í sýndarveruleika sem ýtir undir umræður og samtal um loftslagsmál. Astrid býður einnig upp á hefðbundnara kennsluefni á borð við sögur, frásagnir, kynningar, upplifanir, myndbönd og fleira þar sem fjallað er ítarlega um loftslagmál. Þá er efni fyrir kennara til nota í kennslu um loftslagsbreytingar í þróun í samvinnu við kennara, vísindamenn og stjórnvöld með það að markmiði að greiða aðgang að vísindalegum upplýsingum á aðgengilegan og spennandi máta.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum