Hoppa yfir valmynd
25. júlí 2022 Utanríkisráðuneytið

Ísland veitir 80 milljónum til uppbyggingar í Afganistan

Íslensk stjórnvöld munu veita alls 80 milljónum króna í sérstakan sjóð Sameinuðu þjóðanna fyrir Afganistan (e. Multi Partner Special Trust Fund for Afghanistan) til þess að styðja við þróunarverkefni í landinu samhliða mannúðaraðstoð. Mikil neyð ríkir í Afganistan og áætla Sameinuðu þjóðirnar að rúmlega helmingur þjóðarinnar þurfi á alþjóðlegri mannúðaraðstoð að halda. Félagslegir innviðir eru að hruni komnir og aðgengi að grunnþjónustu er afar slæmt. Þá bættist mannskæður jarðskjálfti í síðasta mánuði ofan á aðrar hörmungar í landinu. Samhliða aukinni mannúðaraðstoð til Afganistan er því mikilvægt að leggja til þróunarverkefna í landinu með það að markmiði að takast á við skaðleg áhrif neyðarástands á grunnþjónustu og nauðsynleg lífsviðurværi.

„Algjört neyðarástand ríkir í Afganistan og þörfin á bæði mannúðar- og þróunaraðstoð ákaflega brýn. Því er afar mikilvægt að Ísland leggi sitt að mörkum til þess að bregðast við þeim hörmungum sem þarna hafa átt sér stað, bæði af völdum náttúru og manna,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Fjórtán stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem starfa á vettvangi í Afganistan hafa aðgang að sjóðnum, þar á meðal UNDP, UNESCO, UNFPA, UNHCR og UN Women sem eru mikilvægar samstafsstofnanir Íslands í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð. Sjóðurinn forgangsraðar verkefnum sem leggja áherslu á að tryggja grunnþjónustu, sjá fólki fyrir nauðþurftum, stuðla að efnahagslegum bata, verja landbúnað gegn náttúruhamförum og auka viðnámsþrótt og félagslega samheldni. Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum