Hoppa yfir valmynd
27. júlí 2022 Dómsmálaráðuneytið

Drög að frumvarpi til laga um sýslumann í samráðsgátt

Drög að frumvarpi til laga um sýslumann í samráðsgátt - myndiStock/Jacob Boomsma

Drög að frumvarpi til laga um sýslumann hafa verið til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar og frestur til að skila inn umsögn hefur verið framlengdur til og með 15. ágúst nk.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný lög um sýslumann sem ætlað er að leysa af hólmi lög nr. 50/2014 um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Með frumvarpinu er lögð til sú grundvallarbreyting á skipulagi sýslumannsembættanna að þeim verði fækkað úr níu í eitt. Við breytinguna verður landið að einu lögsagnarumdæmi og því munu einstaklingar geta nýtt sér þjónustu sýslumanns eftir því sem hentar þeim hverju sinni.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að starfsemi sýslumanns verði svæðisskipt, með sambærilegri landfræðilegri skiptingu og nú gildir um umdæmi sýslumanna, og innan hvers svæðis verði starfandi stjórnandi sem ber ábyrgð á daglegri stjórn starfsstöðvar þess svæðis og þeim verkefnum sem honum erum falin af sýslumanni. Þannig verði öflugar og nútímalegar þjónustueiningar um land allt sem sinni bæði miðlægum og sérhæfðum verkefnum á landsvísu ásamt þjónustu í heimabyggð. Með frumvarpinu er lagt til að aðsetur sýslumanns, þ.e. starfsstöð hans og eftir atvikum hluta yfirstjórnar verði á landsbyggðinni.

Lagt er til að ráðherra geti strax við samþykkt frumvarps hafið undirbúning að stofnun nýs embættis með því að skipa sýslumann og verkefnisstjórn til að vinna með ráðuneytinu að frekari skipulagningu þess. Miðað er við að öll störf hjá gömlu sýslumannsembættunum verði lögð niður við gildistöku laganna en að starfsfólki, öðru en sýslumönnum, verði boðið starf hjá hinu nýja embætti frá sama tíma og þá með sem minnstri röskun á högum þess. Hvað sýslumenn varðar er miðað við að þeirra stöður verði lagðar niður og að nýr sýslumaður auglýsi og ráði í stöður stjórnenda fyrir hvert svæði.

Með breytingunum er verið að bregðast við þeim ábendingum sem fram hafa komið í úttektum sem unnar hafa verið undanfarin ár á rekstri og stjórnsýsluframkvæmd embættanna sem benda til þess að tækifæri séu til að efla þjónustu við almenning, m.a. með auknu framboði opinberrar þjónustu og samstarfi við aðrar ríkisstofnanir og sveitarfélög, samhliða því að hagræða í rekstri með aukinni sérhæfingu á landsvísu og betri nýtingu stafrænna lausna fyrir framkvæmd verkefna.

Á grundvelli úttektanna vann dómsmálaráðuneytið stefnu um framtíðarsýn fyrir málefni sýslumanns, sem birtist í skýrslu sem gefin var út í mars 2021 og ber heitið „Sýslumenn – framtíðarsýn; umbætur á þjónustu og rekstri“, sbr. þingskjal 1043 – 609. mál, 151. löggjafarþing 2020-2021. Til stuðnings stefnunni er með breytingunni stefnt að bættri þjónustu sýslumanns, betri nýtingu fjármuna í rekstri og fjölgun starfa á landsbyggðinni.

Skoða drög að frumvarpi í samráðsgátt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum