Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna

Undirritun fyrsta samnings um tilraunaverkefnið Samvinna eftir skilnað - mynd

Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna (SES) er stafrænn vettvangur um aðgang að rafrænum námskeiðum og félagslegri ráðgjöf til að draga úr ágreiningi foreldra í skilnaðarferli með farsæld barnanna að leiðarljósi. Reynslutímabilinu er nú lokið og hefur Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritað samning um áframhald þjónustunnar í ljósi eftirspurnar og jákvæðra viðbragða.

Með úrræðinu gefst foreldrum í skilnaðarferli kostur á að nýta sér stafræna vettvang SES til fræðslu um samvinnu eftir skilnað. Auk þess býðst fagfólki innan félagsþjónustu sveitarfélaga að sækja SES-PRO námskeið og öðlast SES-ráðgjafaréttindi, foreldrunum til aðstoðar. Markmiðið er að koma í veg fyrir samskipti sem hafa neikvæð áhrif á börn.

Móttökur foreldra og fagaðila hafa verið góðar. Allir 18 námsþættir stafræna vettvangsins eru nú aðgengilegir á Íslandi og haldin hafa verið átta SES-námskeið fyrir fagfólk víðsvegar um landið. Nú eru skráðir 764 notendur að stafrænum vettvangi SES á Íslandi og 142 fagaðilar með SES-PRO ráðgjafaréttindi sem starfa um land allt.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:

„Áhrif sambandsslita á börn geta verið veruleg, einkum þegar illdeilur koma upp. Samvinna eftir skilnað snýr að foreldrum en er hugsuð fyrir börnin, að nýta fagþekkingu um áhættuþætti til að fyrirbyggja neikvæð áhrif eftir fremsta megni. Úrræðið fellur mjög vel að lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og hafa viðbrögðin verið vonum framar.“

Innleiðing SES á Íslandi hófst sem tilraunaverkefni árið 2020 þegar Ásmundur Einar Daðason, þáverandi félags- og barnamálaráðherra nú mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði fyrsta samninginn við danska fyrirtækið Samarbejde efter Skilsmisse ApS um innleiðingu á úrræðinu Samvinna eftir skilnað. Byrjað var með úrræðið í tveimur sveitarfélögum, því næst átta og loks á landsvísu.

Samningurinn tryggir áframhaldandi þjónustu SES á landsvísu til tveggja ára.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum