Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Tengiliðir í þágu farsældar barna

Öll börn og foreldrar þeirra, sem á þurfa að halda, hafa rétt til aðgangs að fagaðila sem getur aðstoðað þau við að fá viðeigandi þjónustu án hindrana á öllum þjónustustigum samkvæmt nýjum lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Mennta- og barnamálaráðuneytið kynnir drög að reglugerð um tengiliði og málstjóra: hlutverk, hæfisskilyrði og menntunarkröfur, til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda.

Markmið laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana, að börnin séu hjartað í kerfinu og að tryggt sé að börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:

„Með tilkomu tengiliða og málstjóra skapast brú milli barna eða aðstandenda þeirra sem þurfa á aðstoð að halda og þeirrar þjónustu sem þeim stendur til boða þvert á kerfi og stofnanir. Reglugerðin sem nú er til umsagnar gerir kröfu um að tengiliðir og málstjórar séu aðgengilegir, hæfir og með hlutverk sitt á hreinu. Þetta er mikilvægur áfangi í innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.“

Strax við fæðingu barns, eða eftir atvikum á meðgöngu, eiga foreldrar og börn rétt á þjónustu tengiliðar. Hlutverk tengiliðar er fyrst og fremst að veita upplýsingar, aðstoða foreldra og barn og styðja við samþættingu þjónustu í samræmi við beiðni foreldra eða barns.

Tengiliður er einstaklingur í nærumhverfi barnsins og er starfsmaður mismunandi þjónustuveitenda eftir æviskeiði þess. Í hverjum leik-, grunn- og framhaldsskóla og á hverri heilsugæslustöð verður í það minnsta einn starfsmaður með hlutverk tengiliðar og skal gætt að því að hann hafi svigrúm til að sinna hlutverkinu. Tengiliður getur einnig verið starfsmaður sveitarfélags þar sem barn á lögheimili. Barna- og fjölskyldustofa styður við tengiliði og hefur yfirsýn yfir þá.

Ef beiðni foreldra eða barns liggur fyrir og ástæða er til að ætla að barn þurfi fjölþætta þjónustu til lengri tíma skal viðkomandi sveitarfélag tilnefna málstjóra. Hlutverk málstjóra er að veita upplýsingar og ráðgjöf og leiða teymisvinnu þar sem þjónusta er samþætt.

Gott samstarf og samráð við fjölskyldur með gagnkvæmri virðingu og trausti er leiðarljósið í störfum tengiliða og málstjóra.

Reglugerðin sem nú er til umsagnar í samráðsgátt er sú fyrsta sem byggir á nýjum lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér málið og veita endurgjöf í Samráðsgátt stjórnvalda.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira