Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Frumvarp um rafrænar skuldaviðurkenningar í Samráðsgátt

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Með breytingum sem lagðar eru til í frumvarpsdrögum um rafrænar skuldaviðurkenningar verður hægt að gefa út, undirrita og þinglýsa lánaskjölum vegna fasteignakaupa og bifreiðakaupa alfarið á rafrænu formi. Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur lagt fram frumvarp þess efnis í Samráðsgátt stjórnvalda en þjóðhagslegur ávinningur af rafrænum þinglýsingum er að lágmarki metinn 1,2 – 1,7 milljarðar króna. 

Tillögurnar eru liður í að fylgja eftir stefnu stjórnvalda og Alþingis um eflingu á stafrænni þjónustu hins opinbera. Þetta mun hafa í för með sér umtalsverða einföldun í fasteigna- og bifreiðaviðskiptum, auka skilvirkni og draga úr kostnaði fyrir neytendur,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra. 

Rafræn þinglýsing er ein af lykilforsendunum þess markmiðs að Ísland verði fremst í flokki í stafrænni stjórnsýslu. Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu kemur fram að þjóðhagslegur ávinningur af rafrænum þinglýsingum er talinn vera umtalsverður auk ábata vegna vaxtamunar, hraðari viðskipta, minni ferðakostnaðar o.fl.

Helsti ábatinn felst í aukinni skilvirkni í störfum sýslumanna, lánveitenda og annarra hagsmunaaðila. Einnig fylgir rafrænum þinglýsingum töluverður ábati fyrir neytendur þar sem núverandi ferli er tímafrekt og biðin eftir þinglýsingu er oft löng. Ljóst má telja aðbreytingarnar muni einfalda störf allra sem koma að meðferð skjala, hafa jákvæð umhverfisáhrif og skapa mikið hagræði bæði fyrir almenning og opinbera aðila.

Hér má nálgast frumvarpið í Samráðsgátt en hægt er að koma með athugasemdir til 5. september næstkomandi.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum