Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2022 Forsætisráðuneytið

Katrín Jakobsdóttir á fundi norrænu forsætisráðherranna í Osló

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Ólafur Scholz, kanslari Þýskalands, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands. - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í dag þátt í árlegum sumarfundi forsætisráðherra Norðurlandanna. Ráðherrarnir áttu einnig fund með Ólafi Scholz, kanslara Þýskalands. Fundirnir fóru fram í Osló en Norðmenn fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu.

Meginefni fundar norrænu forsætisráðherranna var annars vegar breytt staða í öryggis- og varnarmálum í Evrópu vegna innrásar Rússa í Úkraínu og fyrirhugaðrar aðildar Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu. Hins vegar voru málefni hafsins og græn orkuskipti til umræðu en í þeim málaflokkum eru Norðurlöndin í fararbroddi á alþjóðavettvangi. Rætt var um tengsl loftslagsmála og hafsins, mikilvægi bláa hagkerfisins og fæðu úr hafi, og hvernig Norðurlöndin geta aukið samstarf sitt í grænum tæknilausnum og kolefnisbindingu.

Á fundinum voru samþykktar tvær sameiginlegar yfirlýsingar. Annars vegar yfirlýsing um norrænt samstarf á sviði öryggis- og varnarmála og hins vegar yfirlýsing um málefni hafsins og græn orkuskipti.

Á fundi ráðherranna með kanslara Þýskalands var rætt um öryggismál í Evrópu í ljósi innrásar Rússlands í Úkraínu og fyrirhugaða aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu. Einnig var þar rætt um græn orkuskipti og orkuöryggi i í álfunni.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra: „Á tímum sem þessum er mikilvægt að rækta norrænt samstarf enda sjaldan verið mikilvægara. Við Íslendingar fögnum ennfremur reglubundnu samtali Norðurlandanna og Þýskalands um mikilvægustu áskoranir samtímans, eins og loftslagsvána, orkumál og innrás Rússa í Úkraínu.“

  • Katrín Jakobsdóttir á fundi norrænu forsætisráðherranna í Osló - mynd úr myndasafni númer 1
  • Katrín Jakobsdóttir á fundi norrænu forsætisráðherranna í Osló - mynd úr myndasafni númer 2

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum