Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2022 Forsætisráðuneytið

Traust til opinberra aðila almennt gott en bæta þarf samráð

Almennt ríkir traust gagnvart opinberum aðilum hér á landi en almenningur telur jafnframt að stjórnvöld taki ekki nægilegt tillit til ábendinga sem þeim berast. Þetta eru meðal niðurstaðna nýrrar könnunar OECD um traust sem var til umræðu á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Settur verður á fót starfshópur um aukið lýðræðislegt samráð við almenning.

Samkvæmt könnuninni sem var framkvæmd í 22 aðildarríkjum OECD í nóvember og desember á síðasta ári segist rúmur helmingur svarenda á Íslandi treysta stjórnvöldum á landsvísu en um þriðjungur treystir þeim ekki. Sé horft til meðaltals allra ríkjanna reynast hóparnir sem treysta stjórnvöldum og treysta þeim ekki jafnstórir, eða um 41%. Traust almennings á Íslandi til opinberra aðila mælist yfir meðaltali OECD í öllum tilvikum nema þegar kemur að dómskerfinu.

 

Samkvæmt könnuninni hafa ýmsir þættir áhrif á traust almennings til stjórnvalda. Þannig er yngra fólk, þeir sem hafa fjárhagslegar áhyggjur, þeir sem eru minna menntaðir og þeir sem kusu ekki ríkjandi valdhafa líklegri til að bera minna traust til stjórnvalda. Er það í samræmi við niðurstöður könnunarinnar í heild.

Í könnuninni var líka spurt um hversu vel fólk teldi stjórnvöld reiðubúin til að takast á við nýjan heimsfaraldur. Um 57% svarenda á Íslandi telur stjórnvöld vel undirbúin fyrir heimsfaraldur en rúm 27% ekki. Að meðaltali í OECD-ríkjunum telur rétt tæpur helmingur að stjórnvöld séu vel undirbúin fyrir heimsfaraldur en tæpur þriðjungur að stjórnvöld séu illa undirbúin.

Í könnun OECD er einnig dregið fram að almennt geti stjórnvöld gert betur í að bregðast við ábendingum borgara. Þannig telur aðeins um 20% svarenda á Íslandi að hann geti haft áhrif á ákvarðanir stjórnvalda sem er undir meðaltali OECD. Þá telur um þriðjungur svarenda á Íslandi að opinber þjónusta verði bætt þegar kvartað er undan henni. Það hlutfall er einnig undir meðaltali OECD.

Sem viðbrögð við niðurstöðum könnunarinnar og framhald tillagna starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu verður skipaður starfshópur um aukið lýðræðislegt samráð við almenning. Hlutverk hópsins verður að fylgja eftir aðgerðum í skýrslu um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu og móta frekari tillögur að aðgerðum. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum