Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra og varautanríkisráðherra Indlands funduðu í Reykjavík

Utanríkisráðherra og varautanríkisráðherra Indlands funduðu í Reykjavík - myndUtanríkisráðuneytið

Samstarf á sviði jarðvarma, sjávarútvegs, menningar, jafnréttis, nýsköpunar og viðskipta voru meðal þess sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Meenakashi Lekhi, varautanríkisráðherra Indlands, ræddu á fundi sínum í Reykjavík í dag.

Indland og Ísland fagna í ár hálfrar aldar stjórnmálasambandi og er Meenakashi Lekhi stödd hér á landi ásamt sendinefnd af því tilefni.

„Fundur okkar varautanríkisráðherra Indlands var bæði gagnlegur og ánægjulegur og það gladdi mig sérstaklega að heyra hana lýsa yfir ánægju með samstarfi við GRÓ-skólanna og  hvernig sérfræðingar frá Indlandi hafa notið góðs af því sem þeir hafa lært hér,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Sérstakur verkefnishópur um samstarf Indlands og Ísland um nýtingu jarðvarma var stofnaður fyrr á árinu. Jarðvarmi er víða á Indlandi, einkum í norðurhluta landsins. Tvö jarðhitaverkefni eru í vinnslu sem íslenskir aðilar taka þátt í, annað á sviði raforkuframleiðslu og hitt snýst um nýtingu jarðhita fyrir kæligeymslu.

„Möguleikar á nánara samstarfi við Indland eru fjölmargir, einkum á sviði jarðvarma, fiskveiða og nýsköpunar“ segir Þórdís Kolbrún. „Eins og nærri má geta eru tækifærin sem felast í auknu samstarfi við þessa næstfjölmennustu þjóð jarðar afar mikil og þau ættum við að nýta til hins ítrasta.”

Ráðherrarnir ræddu einnig stöðu heimsmála og innrás Rússa í Úkraínu. Lagði Þórdís Kolbrún áherslu á virðingu fyrir alþjóðalögum og mikilvægi samstöðu um að vernda þau gildi sem lýðræðisríki grundvallast á.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum