Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Úthlutun gæða- og nýsköpunarstyrkja til verkefna í heilbrigðisþjónustu

Úthlutun gæða- og nýsköpunarstyrkja til verkefna í heilbrigðisþjónustu - myndStjórnarráðið

Heilbrigðisráðherra hefur úthlutað tæpum 35 milljónum króna í gæða- og nýsköpunarstyrki til 12 verkefna. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á heilsueflingu og nýtingu nýrra lausna til að auka gæði, þjónustu og hagkvæmni. Verkefnin þurftu að hafa skýran ávinning fyrir heilbrigðisþjónustuna og þann hóp sem þjónustan beinist að. Frestur til að sækja um styrki rann út 1. maí síðastliðinn og bárust 32 umsóknir um fjölbreytt verkefni. Úthlutunarnefnd skipuð fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins lagði mat á umsóknirnar og gerði tillögu til ráðherra um styrkveitingar. 

Prófun á fjarheilbrigðislausn fyrir lungnasjúkdóma og sykursýki

Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Öryggismiðstöðin fengu hæsta styrkinn sem nemur 6 milljónum króna  til að aðlaga, innleiða og prófa fjarheilbrigðishugbúnað frá norsku heilbrigðistæknifyrirtæki í eitt ár. Hugbúnaðurinn tengir saman ýmsar heilbrigðistæknilausnir, s.s. lyfjaskammtara, mælitæki, fræðsluefni og myndsamtöl. Sjúklingar verða með eitt samræmt notendaviðmót þar sem þeir hafa yfirsýn yfir sínar mælingar og upplýsingar. 

Fjarendurhæfing einstaklinga með hálsáverka

NeckCare Holding ehf.  Fékk 4 milljóna króna styrk til að útvíkka kerfi sem felur í sér hreyfifræðileg próf til að meta ástand einstaklinga sem hafa orðið fyrir hálsskaða. Prófin aðstoða lækna og sjúkraþjálfara í að greina skaðann, komast að rótum hans og sérsníða meðferð fyrir sjúklinginn. Markmið verkefnisins felst í því að sjúklingurinn geti notað kerfið heima og framkvæmt sérsniðnar æfingar. Meðferðaraðili getur stýrt gerð æfinga, erfiðleikastigi og hvaða daga eigi að framkvæma þær. Niðurstöðum æfinganna er hlaðið upp í gagnagrunn til að auðvelda eftirfyld og áframhaldandi meðferð. 

Önnur verkefni

Nokkur verkefni fengu 3 milljóna króna styrki. Þar á meðal er verkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um heilsueflingu kvenna á breytingaskeiði sem ætlað að bæta þekkingu bæði almennings og heilbrigðisstarfsfólks á breytingaskeiði kvenna.

Landspítali fær einnig 3 milljóna króna styrk til reksturs bifreiðar Laufeyjar nærþjónustu. Laufey nærþjónusta hjá geðþjónustu Landspítala þjónar einstaklingum með langvarandi alvarlegan samslátt geð- og fíknisjúkdóma sem hefur veruleg áhrif á heilsu og lífsgæði þar sem starfað er eftir markmiðum batamiðaðrar hugmyndafræði, áhugahvetjandi samtals, geðlæknisfræði og skaðaminnkunar. Bifreiðinni er ætlað að nýtast starfsfólki til að fara í vitjanir og veita með því skjólstæðingum teymisins heilbrigðis- og félagsþjónustu í öruggu og hreinu umhverfi.

Heilbrigðisráðuneytið óskar styrkhöfum til hamingju með árangurinn og góðs gengis í framtíðinni.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum