Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samantekt um stöðu efnahagsmála: Kaupmáttur vaxið hratt og drifkraftar verðbólgu í rénun

Staða og horfur í efnahagsmálum eru góðar. Slaki í hagkerfinu sem myndaðist í byrjun árs 2020 er horfinn og eftirspurn er þróttmikil. Laun hafa hækkað mikið, kaupmáttur hefur vaxið afar hratt og nokkrir drifkraftar verðbólgu eru í rénun þó hún sé enn of há. Vöxtur verðmætasköpunar á mann er forsenda þess að kaupmáttur geti áfram vaxið til lengdar.

Þetta kemur fram í samantekt ráðuneytisins um stöðu efnahagsmála á síðari hluta sumars. Styrkur efnahagsmála endurspeglast m.a. í hárri landsframleiðslu á mann og mikilli atvinnuþátttöku. Þá eru hagvaxtarhorfur hér á landi í ár bjartari en í flestum samanburðarríkjum.

 Kaupmáttur launa á Íslandi er mikill, en hann er sá mesti meðal OECD-ríkja að Lúxemborg og Bandaríkjunum undanskildum.

 
 

Verðbólga hefur hækkað og er nú 9,9%, en hækkun íbúðaverðs skýrir stóran hluta verðbólgunnar. Undirliggjandi verðbólga er lægri og á samræmdan mælikvarða er verðbólga sú næstlægsta í Evrópu, 6,4%.

Allar líkur eru á að senn hægi á hækkun íbúðaverðs en samspil vaxtahækkana og hertari lánaskilyrða mun draga úr verðhækkunum á næstu mánuðum, auk þess sem von er á auknum fjölda nýrra íbúða.

Þá er hrávöruverð og framboðsvandi í rénun en hvort tveggja er að óbreyttu líklegt til þess að lækka verðbólgu á næstu mánuðum. Þannig hefur olíuverð lækkað um u.þ.b. fjórðung frá því að það var hæst í mars sl.

Önnur verðbólga ræðst að stórum hluta af niðurstöðu kjarasamninga og launaþróun í landinu.

 
 
 

 

Hröð hækkun launa hefur haldið í við háa verðbólgu. Kaupmáttur launa er því svipaður og fyrir ári síðan og hærri en öll árin þar á undan.
 

Gert ráð fyrir batnandi afkomu

Gert er ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs fari batnandi á næstu árum en halda þarf áfram að bæta afkomuna svo ríkissjóður verði í stakk búinn til þess að bregðast við áföllum í framtíðinni. Bætt afkoma ríkissjóðs dregur einnig úr þörf fyrir vaxtahækkanir Seðlabankans. Í júní kynnti ríkisstjórnin tillögur um breytingar á fjármálaáætlun í því skyni að draga úr þenslu, m.a. með varanlegri lækkun ferðakostnaðar ríkisins, frestun á nokkrum útgjaldamálum til ársins 2024, lækkun framlaga til stjórnmálasamtaka og endurskoðun fjárfestingaráforma, en aðgerðirnar verða nánar útfærðar í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 sem lagt verður fram í september.
 

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira