Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2022 Matvælaráðuneytið

Matvælaráðherra endurnýjar samning um loftslagsvænan landbúnað

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, undirritaði í dag samning um verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður. Meginmarkmið verkefnisins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og landnýtingu ásamt því að auka kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri. Verkefnið byggir á samstarfi Landgræðslunnar, Matvælaráðuneytis, Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins, Skógræktarinnar og Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytisins.

Markmið samningsins er að efla verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður á árinu 2022, auðvelda framkvæmd þess, bæta mat á árangri þátttakenda í verkefninu og undirbúa það fyrir frekari stækkun.

Ljóst er að mesta losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði má rekja til nautgripa- og sauðfjárbúa. Því er mikilvægt að auka rannsóknir og fræðslu fyrir þessar tvær búgreinar. Á árinu 2022 bættust 15 nautgripabændur við verkefnið, og verður unnið að því að fjölga þátttakendum á árinu 2023. Jafnframt er stefnt á að fjölga búgreinum í verkefninu og verður sem fyrr leitast eftir víðtæku samstarfi við bændur. Fulltrúar 52 búa taka þátt í verkefninu í dag.

„Þetta mikilvæga verkefni er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Það er því hvetjandi að finna þann áhuga sem bændur víða um land hafa sýnt þessu verkefni,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. „Settum loftslagsmarkmiðum verður ekki náð án víðtæks samstarfs allra greina. Fólk sem vinnur í íslenskum landbúnaði skilur mikilvægi loftslagsmála og vinnur að þeim af heilum hug.“

Hér má finna nánari upplýsingar um verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
12. Ábyrð neysla og framleiðsla
15. Líf á landi
14. Líf í vatni
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum