Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Starfshópur um vindorku kallar eftir sjónarmiðum

Vindmyllur - myndJohannes Jansson/norden.org

Starfshópur um vindorku sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði í sumar kallar nú eftir sjónarmiðum hagaðila, sveitarfélaga, félagasamtaka og almennings á málefnum vindorku.

Starfshópurinn hefur þegar hafið störf, en hann hefur það verkefni að skoða og gera tillögur til ráðherra um nýtingu vindorku, þ.á m. um lagaumhverfi hennar og hvernig verði tekið á ýmsum álitamálum.

Tilgreint er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að setja skuli sérstök lög um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku. Áhersla verði lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum og að mikilvægt sé að breið sátt ríki um uppbyggingu slíkra vindorkuvera og tillit sé tekið til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru.

„Við eigum að skila af okkur fyrir febrúar 2023 og verkefnið er ærið. Starfshópurinn er einhuga í að vanda sig vel og leitast við að tryggja að allir sem það vilja fái tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við okkur. Við eigum mikið verk fyrir höndum og í þessu máli togast á mikilvægir hagsmunir sem krefjast vandaðrar skoðunar og umfjöllunar,“ segir Hilmar Gunnlaugsson formaður hópsins og bætir við: „Við hvetjum því eindregið til að aðilar setji fram skoðanir sínar og taki þátt í að móta þá niðurstöðu sem vonandi liggur fyrir í byrjun nýs árs.“

Auk Hilmars skipa starfshópinn þau, Björt Ólafsdóttir, fyrrv. ráðherra umhverfis- og auðlindamála og Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrv. alþingismaður.

Þeir sem vilja koma sjónarmiðum sínum á framfæri um nýtingu vindorku og sérstaklega þau atriði sem fjallað er um í skipunarbréfinu, geta sent þau í netfangið [email protected] fyrir 30. september n.k.

Nánari upplýsingar veitir Hafsteinn S. Hafsteinsson, lögfræðingur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum