Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Allar listgreinar nú kenndar við LHÍ

Ráðherra ásamt nemendum og kennurum kvikmyndalistadeildar, deildarstjóra og rektor Listaháskóla Íslands. - myndLHÍ / Heiða Helgadóttir

Kvikmyndlist hefur bæst við námsframboð Listaháskóla Íslands (LHÍ) og eru nú allar listgreinar kenndar við skólann eftir að kennsla við kvikmyndalistadeild hófst í síðustu viku í nýju húsnæði LHÍ í Borgartúni 1.

Frá stofnun LHÍ hefur verið stefnt að því að skólinn hýsi allar listgreinar og er því um stóran áfanga að ræða í sögu Listaháskólans. Að sögn rektors, Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur, er fágætt á heimsvísu að listaháskóli bjóði upp á nám í öllum listgreinum.

Í frétt LHÍ um þennan merka áfanga kemur fram að viðbót kvikmyndalistar við námsframboð skólans sé einnig stór stund fyrir íslenska kvikmyndalist, sem nú kemst á sama stað og aðrar listgreinar hvað varðar menntunarstig og þróun innan háskólakerfisins. Námið sem um ræðir er þriggja ára grunnnám í kvikmyndalist og vonast LHÍ til að geta í framhaldinu þróað meistaranám í sömu grein.

Ráðherra háskólamála ávarpaði nemendur

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sótti rektor, kennara og nemendur heim í húsnæði kvikmyndalistadeildar og ávarpaði hópinn á fyrsta kennsludegi. Ráðherra lýsti yfir ánægju sinni með þetta framskref í rannsóknum og þróun á kvikmyndalist, sem fer sífellt vaxandi á landinu. „Það skiptir máli að það séu tækifæri fyrir fólk þegar það kemur úr námi og það eru næg tækifæri í þessum ört stækkandi iðnaði sem kvikmyndalist er,“ segir Áslaug Arna.

Steven Myers, forseti kvikmyndalistadeildar, sagðist af þessu tilefni vera fullur auðmýktar að geta loks tekið á móti fyrstu nemendum í kvikmyndalist. „Á þessum mikilvægu tímamótum vil ég sérstaklega þakka öllum þeim sem vörðuðu leiðna og leiddu okkur hingað á þessi miklu tímamót í sögu íslenskrar kvikmyndalistar.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira