Hoppa yfir valmynd
2. september 2022 Innviðaráðuneytið

Reykjadalur rampaður upp

Bryndís Thors sá um að vígja rampinn við sumarbúðirnar í Reykjadal. - myndGolli

Rampur númer 130 í átakinu Römpum upp Ísland var vígður við hátíðlega athöfn fyrr í dag, við sumarbúðirnar í Reykjadal. Athöfnin var vel sótt í gleði og spenningi. Bryndís Thors sem sækir sumarbúðirnar í Reykjadal árlega sá um að vígja rampinn. Við athöfnina tóku til máls Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Unnur Ösp Stefánsdóttir, móðir Bryndísar, Andrea Rói Sigurbjörns, forstöðumaður sumarbúða í Reykjadal og Hörður Sigurðsson, formaður Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Jón Jónsson, tónlistarmaður, tók einnig nokkur lög fyrir gesti og gangandi.

„Römpum upp Reykjadal! Reynum að hjálpa öllum að komast leiðar sinnar, hvar sem er og hvenær sem er. Fleiri rampa, færri tálma. Ég hlakka alltaf til að fá að taka þátt í viðburðum á vegum Römpum upp Ísland og er dagurinn í dag engin undantekning,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands við þetta tækifæri.

„Kæru vinir, alltaf þegar við hjónin keyrum Bryndísi í árlega Reykjadalsferð sína þá fyllist hjarta mitt af þakklæti. Ég verð meyr, pínu hrygg en aðallega djúpt snortin og glöð. Mannauðurinn í starfsmannahópnum hér í Reykjadal er fágæt auðlind. Börnin eru mætt eftir langa bið í eftirvæntingu og mörg þeirra að upplifa einhvers konar hápunkt ársins, ef ekki lífsins. Við foreldrar verðum svo þakklát fyrir viðhorfið, metnaðinn og gleðina sem skín úr augum starfsfólks Reykjadals. Ár hvert mæta þau börnum, brosum þeirra, já, og stundum tárum yfir spennu og aðskilnaði við foreldra, en alltaf mæta þau þeim af virðingu, næmni og gleði,“ sagði Unnur Ösp Stefánsdóttir í ávarpi sínu.

Römpum upp Ísland hófst formlega með vígslu á fyrsta rampinum þann 23. maí í Hveragerði og er stefnt að því setja upp 1000 rampa um allt land á næstu fjórum árum. Stofnaður var sjóður með aðkomu fjölmargra fyrirtækja og aðila sem standa straum af kostnaði fyrir þá verslunar- og veitingahúsaeigendur sem taka þátt í verkefninu Römpum upp Ísland.

Haraldur Þorleifsson stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno er hvatamaður verkefnisins. Innviðaráðuneytið og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga eru meðal helstu styrktaraðila þess. 

Hægt er að kynna sér verkefnið nánar á vefsvæðinu rampur.is.

  • Mikil gleði var við opnunarathöfnina í dag og gestir stilltu sér upp með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.
  • Unnur Ösp Stefánsdóttir, leikstjóri, leikkona og móðir Bryndísar sem vígði rampinn, flutti ávarp við athöfnina.
  • Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti ávarp við vígslu rampsins við sumarbúðirnar í Reykjadal.
  • Hörður Sigurðsson, formaður Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, flutti ávarp við vígslu rampsins við sumarbúðirnar í Reykjadal.
  • Andrea Rói Sigurbjörns, forstöðumaður sumarbúða í Reykjadal, flutti ávarp við vígslu rampsins.
  • Jón Jónsson, tónlistarmaður, lék nokkur lög fyrir gesti og gangandi.
  • Stór og öflugur hópur kom að uppsetningu rampsins og opnun hans við sumarbúðirnar í Reykjadal.
  • Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Haraldur Þorleifsson, hvatamaður verkefnisins, ræða við Bryndísi Thors, Björn Thors föður hennar og Þórunnar Sigurðardóttur ömmu hennar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira