Hoppa yfir valmynd
5. september 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Lilja fundaði með Edmund Phelps – Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stóð fyrir ráðstefnu um áskoranir í heimsbúskapnum, Brotalínur eftir Covid, dagana 1-2. september. Á ráðstefnunni var m.a. fjallað um hvernig samspil neikvæðra framboðsskella og ónógra stefnuviðbragða við þeim geta grafið undan þjóðfélagslegum stöðugleika, rætur mismunandi hugmyndafræði varðandi stjórnun og samspil ríkja, hagvaxtarhorfur og misgengi í heimsbúskapnum, fjármálalega alþjóðavæðingu og sveiflukenndar fjármagnshreyfingar á milli landa, áhættu í hinu alþjóðlega peninga- og fjármálakerfi, framleiðniþróun og opinbera skuldsetningu, rætur og efnahagsleg áhrif alþjóðlegrar spennu, og efnahagsleg áhrif stríðsins í Úkraínu.

Meðal ræðufólks var erlent háskólafólk, þ.m.t. nóbelsverðlaunahafinn Edmund Phelps. Einnig töluðu fyrrverandi aðalhagfræðingar banka og alþjóðastofnana, þ.m.t. William White fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóðagreiðslubankans í Basel.

Í kjölfar ráðstefnunnar fundaði menningar- og viðskiptaráðherra með Edmund Phelps, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2006 og er framkvæmdastjóri Miðstöðvar um markaðshagfræði og samfélag við Columbia-háskóla. Hann hefur kennt við Yale, og gegnt prófessorstöðum hjá Penn og Columbia-háskólanum frá 1971.

„Það var einkar ánægjulegt að hitta loksins Edmund Phelps og afar áhugavert að heyra hans skoðanir á málefnum líðandi stundar. Ljóst er að alþjóðahagkerfið er að fást við afar umfangsmiklar áskoranir í kjölfar heimsfaraldursins og svo innrásar Rússa í Úkraínu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Edmund Phleps hefur skrifað margar bækur um hagvöxt, atvinnuleysiskenningar, kreppur, stöðnun, athafnasemi, nýsköpun og vel rekin hagkerfið. Eitt meginverkefni Phelps hefur verið að koma mannlegri hegðun inn í hagfræðikenningar sínar. Hann hefur rannsakað launasetningu atvinnulífsins ásamt því að sýna fram á að minnkun peningaframboðs í umferð veldur ekki aðeins að verðlag og laun lækka heldur hefur sú aðgerð einnig áhuga á langvarandi atvinnuleysi.

Phelps hefur unnið mikið með Gylfa Zoega, prófessor í hagfræði, og hafa þeir ásamt prófessornum Hian Teck Hoon fundið orsakasamhengi milli þess að atvinnustig þjóða hefur lækkað vegna aukins auðsöfnunar heimilanna og veikingar gjaldmiðilsins. Þessi kenning skýrir lækkandi atvinnustig í Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi. Rannsóknir Phelps hafa einnig leitt í ljós að kröftug nýsköpun í meira en öld breytir eðli þróaðra hagkerfa, en samhliða henni skiptir það minna máli að hafa hærri tekjur eða eignir.

Skipuleggjendur ráðstefnunnar voru Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, Robert Z Aliber, prófessor við Chicago háskóla, Gylfi Zoega prófessor við Háskóla Íslands og Robert McCauley, fyrrverandi yfirmaður Hong Kong skrifstofu Alþjóðagreiðslubankans. Þeir voru einnig allir með erindi á ráðstefnunni. Unnið er að alþjóðlegri útgáfu bókar með efni ráðstefnunnar.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum