Hoppa yfir valmynd
6. september 2022 Utanríkisráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Áfrýjunarnefnd EUIPO tekur Iceland-málið fyrir

Munnlegur málflutningur í máli Íslands gegn bresku verslunarkeðjunni Iceland Foods Ltd fer fram fyrir fjölskipaðri áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) föstudaginn 9. september. Þetta er í fyrsta sinn sem mál er flutt munnlega fyrir áfrýjunarnefndinni. Áður hafði EUIPO komist að þeirri niðurstöðu að vörumerkjaskráning Iceland Foods Ltd á orðmerkinu ICELAND í Evrópusambandinu væri ógild í heild sinni.

Skráning vörumerkisins ICELAND steinn í götu íslenskra vörumerkja

Forsaga málsins er að íslenska ríkið, ásamt Íslandsstofu og Samtökum atvinnulífsins, greip árið 2016 til aðgerða gegn skráningu Iceland Foods Ltd á vörumerkinu ICELAND innan Evrópusambandsins. Iceland Foods Ltd, sem upphaflega skráði vörumerkið árið 2014, hefur einnig skráð vörumerkið í fjölda annarra landa og beitt sér gegn því að íslensk fyrirtæki geti auðkennt sig með upprunalandinu á vörum sínum og þjónustu. Til að mynda hefur verslunarkeðjan sett sig upp á móti skráningu íslenskra vörumerkja á borð við INSPIRED BY ICELAND og ICELANDIC.

Íslenska ríkið hefur af þessari ástæðu beitt sér gegn skráningum Iceland Food Ltd auk þess að vakta ný skráð vörumerki sem innihalda orðin ICELAND eða ÍSLAND. Utanríkisráðuneytið hefur haft umsjón með þessari vörumerkjavöktun og bregst við þegar tilefni er til.

Vörumerki sem vísi til opinbers heiti á fullvalda þjóð eigi ekki að fást skráð

Krafa íslenska ríkisins um ógildingu orðmerkisins ICELAND hjá EUIPO frá árinu 2016 byggist á því að vörumerkið uppfylli ekki lagaskilyrði til þess að fást skráð sem vörumerki í Evrópusambandinu. Er þetta á þeim grundvelli að merkið skorti sérkenni, sé lýsandi fyrir vöruna og villandi um uppruna þeirra vara sem það auðkennir. Vörumerkið hefði þar af leiðandi aldrei átt að fást skráð enda vísi það til þekkts landfræðilegs heitis og opinbers heitis á fullvalda þjóð.

Árið 2019 féllst Evrópska hugverkastofan á allar kröfur íslenska ríkisins er hún komst að þeirri niðurstöðu að vörumerkjaskráning verslunarkeðjunnar á orðmerkinu ICELAND væri ógild í heild sinni. Iceland Foods Ltd ætti eftir sem áður orð- og myndmerki sitt og gæti haldið áfram að stunda viðskipti undir nafninu, en hefði ekki rétt til að stöðva skráningu íslenskra fyrirtækja sem nýta heitið. Breska verslunarkeðjan vildi þrátt fyrir það ekki una niðurstöðunni og skaut málinu því til áfrýjunarnefndar EUIPO.

Niðurstaða verði fordæmisgefandi

ICELAND-málið er mikilvægt og fordæmisgefandi bæði á sviði hugverkaréttar og þjóðaréttar enda getur niðurstaða þess leitt til breytinga á evrópskum hugverkarétti. Athygli hefur vakið að áfrýjunarnefnd EUIPO er að þessu sinni fjölskipuð, þ.e. skipuð níu aðilum í stað þriggja eins og í hefðbundnum áfrýjunarnefndum. Það er talið til marks um hve mikilvægt málið er talið vera, en af um það bil 2.500 árlegum áfrýjunum er einungis 3-5 vísað til fjölskipaðrar áfrýjunarnefndar. Þegar við bætist að málið er það fyrsta sem flutt er munnlega fyrir nefndinni verður þýðing þess enn betur ljós.

Íslensk stjórnvöld og málsaðilar hafa lagt áherslu á að efnisleg niðurstaða fáist í umfjöllun áfrýjunarnefndarinnar þar sem um fordæmalaust mál er að ræða fyrir íslenska hagsmuni en ekki er vitað um nein dæmi um samsvarandi notkun á landaheiti í vörumerkjarétti. Viðræður á milli málsaðila hafa farið fram nokkrum sinnum í gegnum árin í því skyni að ræða sáttagrundvöll en  hafa ekki skilað ásættanlegri niðurstöðu.

Óvíst er hvenær niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar liggur fyrir en vonir standa til að það verði í byrjun næsta árs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum