Hoppa yfir valmynd
8. september 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Áslaug Arna stjórnmálamaður ársins hjá One Young World samtökunum

Áslaug Arna tekur við verðlaunum á One Young World ráðstefnunni - myndOne Young World

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tók í gær á móti Politician of the Year 2022 verðlaunum á One Young World ráðstefnunni sem að þessu sinni fer fram í Manchester á Englandi. Ráðstefnan leiðir saman yfir tvö þúsund manns víðs vegar að úr heiminum sem öll eiga það sameiginlegt að vera leiðtogar á sínu sviði.

Tilkynnt var um tilnefningu Áslaugar Örnu í mars á þessu ári þegar alþjóðleg dómnefnd valdi hana eina af fimm sigurvegurum framúrskarandi ungra stjórnmálamanna ársins sem allir koma frá mismunandi heimsálfum. Í fyrstu voru fimmtán manns tilnefndir í til verðlaunanna. „Þetta er hvatning og skemmtileg viðurkenning, ekki bara fyrir mig persónulega heldur varpar hún ljósi á þá staðreynd að á Íslandi fær ungt fólk tækifæri til að láta til sín taka,“ sagði Áslaug Arna þegar úrslitin voru gerð kunn.

Jafnréttismál ávallt í fyrirrúmi

Áslaug Arna var samhliða verðlaunaafhendingunni viðmælandi í pallborðsumræðum sem báru yfirskriftina Stjórnmálamaður ársins: að skilja valdastrúktúra – konur og pólitísk forysta (e. Understanding power structures – Women and Political Leadership). Jafnréttismál voru þar í brennidepli. „Stóra myndin sýnir að það er grundvallaratriði að tryggja öllum kynjum um allan heim jafnt aðgengi að menntun,“ sagði Áslaug Arna aðspurð um þarfar aðgerðir í átt að aukni jafnrétti, m.a. í stjórnmálum. „Ég gerði jafnréttismál að forgangsverkefni þegar ég tók við embætti dómsmálaráðherra, þá 28 ára gömul, til að mynda með lagabreytingum um stafrænt kynferðisofbeldi og umsáturseinelti.“

Jafnréttismál voru ekki skilin eftir er Áslaug Arna tók við embætti sem nýr ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar. Í nýju hlutverki beitir hún sér fyrir fjölgun kvenna í STEAM greinum, aukinni þátttöku kvenna í nýsköpunar- og þróunarverkefnum „Staða kvenna í samfélaginu er best á Íslandi á alþjóðavísu síðustu þrettán ár ef marka má röðun Alþjóðaefnahagsráðsins. En baráttunni um jöfn tækifæri er hvergi nærri lokið.“

Óhrædd við að fara nýjar leiðir

„Vertu óhrædd, taktu pláss, segðu hvað þér finnst og ekki vera feimin við að taka að þér ábyrgðarhlutverk eru ráð sem ég vil gefa ungum konum, hvort sem það tengist stjórnmálum eða öðrum verkefnum,“ sagði Áslaug Arna einnig í pallborðsumræðunum þegar sjónum var beint að ungum konum í stjórnmálum. „Ég hef gert það að mínu áhersluverkefni sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein íslensku þjóðarinnar. Við megum ekki vera hrædd við að víkja frá hefðinni og fara nýjar leiðir.“

 

Eins og fram hefur komið hljóta fimm framúrskarandi stjórnmálamenn á aldrinum 18-35 ára verðlaunin. Auk Áslaugar eru það Juan Diego Vásquez frá Panama, Seun Fakorede frá Nígeríu, Dr. Sumera Shams frá Pakistan og Taylor Small frá Bandaríkjunum sem One Young World samtökin útnefna stjórnmálamenn ársins.

Politician of the Year verðlaunin voru fyrst veitt árið 2018. Þeim er ætlað að beina athygli að ungum og efnilegum stjórnmálamönnum um allan heim. Sigurvegarar eru valdir af kostgæfni og er m.a. litið til framfara og áhrifa sem þeir hafa haft í heimalandinu og hvernig þeir nýta stöðu sína til hvatningar fyrir yngri kynslóðir. Verðlaunin eru þau fyrstu sinnar tegundar í heiminum en markmið þeirra er að ýta undir þátttöku ungs fólks í stjórnmálum. Á vefsíðu One Young World segir að samkvæmt Alþjóðaþingmannasambandinu eru aðeins 2% þingmanna í heiminum yngri en 30 ára og 14% undir 40 ára.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum