Hoppa yfir valmynd
14. september 2022 Utanríkisráðuneytið

Aukin framlög til mannúðarstofnana vegna hamfara í Sómalíu og Pakistan

Börn að leik í rústunum eftir flóðin í Pakistan. - myndUNHCR

Utanríkisráðherra hefur ákveðið að bregðast við neyðarástandi í Sómalíu og Pakistan með viðbótarfjármagni til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Um er að ræða þrjátíu milljóna króna framlag til WFP vegna afleiðinga langvarandi þurrka í Sómalíu og þrjátíu milljóna króna framlag til UNHCR í kjölfar mannskæðra flóða í Pakistan.

„Áhrifa loftslagsbreytinga gætir nú þegar víða um heim og eru íbúar fátækari ríkja þar í mestri hættu. Okkur ber skylda til að leggja okkar að mörkum og veita neyðaraðstoð þegar hamfarir sem þessar verða,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Í Sómalíu standa um sjö milljónir íbúa frammi fyrir hungursneyð eftir verstu þurrka í fjörutíu ár. Fjögur regntímabil í röð hafa brugðist og útlit er fyrir að það næsta muni einnig bregðast. Talið er að alls 1,5 milljónir barna undir fimm ára aldri séu þar vannærð og þar af glíma hátt í fjögur hundruð þúsund við lífshættulega vannæringu. Rúm ein milljón manns hefur hrakist frá heimilum sínum vegna þurrkanna, þar af 750 þúsund á þessu ári. 

Neyðarástand ríkir einnig í Pakistan þar sem um 33 milljónir manna hafa orðið fyrir barðinu á verstu flóðum þar í marga áratugi. Talið er að rúmlega eitt þúsund manns, fjölmörg börn þar á meðal, hafi farist frá því miklar rigningar hófust um miðjan júní. UNHCR áætlar að um fimm hundruð þúsund manns hafi þurft að flýja heimili sín vegna flóða og hafist nú við í flóttamannabúðum. Nærri ein milljón heimila hefur eyðilagst og 700 þúsund búfjár drepist. Þá hafa miklar skemmdir orðið á innviðum með þeim afleiðingum að íbúar eiga erfitt um vik að koma sér á öruggari staði og erfitt er að koma neyðaraðstoð til bágstaddra.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira