Hoppa yfir valmynd
15. september 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ísland tekur þátt í samevrópsku tilraunaverkefni með rafræn auðkennaveski

Ísland tekur þátt í samevrópsku tilraunaverkefni með rafræn auðkennaveski - myndMynd/Nobid consortium

Samstarfshópur þeirra landa í Evrópu sem hafa hvað mesta reynslu á sviði stafrænnar auðkenningar kynnti í gær tillögu sína um að setja af stað umfangsmikið tilraunaverkefni sem samrýmist markmiðum áætlunar Framkvæmdastjórnar ESB um rafræn auðkennaveski (e. digital identity wallet). Sex lönd (Danmörk, Þýskaland, Ísland, Ítalía, Lettland og Noregur) taka þátt í samstarfsverkefninu undir forystu NOBID (Nordic-Baltic eID Project). Tillaga hópsins lýtur að þeirri notkun slíkrar lausnar sem Evrópusambandið leggur mesta áhersla á – greiðslum.

Öll löndin í samstarfshópnum státa af öflugum stafrænum innviðum. Undir forystu NOBID í kjölfar vel heppnaðrar samræmingar þess á rafrænum auðkenningarkerfum nokkurra evrópskra landa með tugum milljónum íbúa mun hópurinn vinna saman að því að sýna fram á hvernig hægt er að sameina greiðslur og auðkenni á auðveldan hátt þvert á landamæri og í ólíkum gjaldmiðlum. Hópurinn nýtur dyggs stuðnings ríkisstofnana, banka, fyrirtækja og tækniveita á sviði rafrænnar auðkenningar og mun nýta hina öflugu stafrænu innviði sem fyrir eru í löndunum sex.

Rafrænt auðkennaveski ESB er lífkennaöruggt forrit sem mun gera íbúum Evrópu kleift að auðkenna sig á auðveldan hátt til að fá aðgang að opinberri þjónustu og þjónustu einkaaðila og geyma viðkvæm rafræn skjöl á einum stað. Tillaga hópsins um að setja á laggirnar eitt af fjórum tilraunaverkefnum ESB með rafræn auðkennaveski er í fullu samræmi við meginmarkmið ESB á sviði rafrænnar auðkenningar.

Tillaga samstarfshópsins lýtur að greiðslum, sem er það notkunarsvið sem ESB leggur hvað mesta áherslu á. Núverandi greiðsluinnviðir verða nýttir við framkvæmd verkefnisins til að bjóða upp á greiðsluútgáfu, skyndigreiðslur, millifærslur á milli reikninga og greiðslusamþykki bæði í verslunum og á netinu. Verkefnið samrýmist áætlunum ESB um að valdefla aðildarríki og auka skilvirkni greiðslna yfir landamæri, svo sem verkefninu um evrópska greiðslumiðlun (European Payments Initiative - EPI) og verkefninu um stafræna evru (Digital Euro). Verkefnið nýtur öflugs stuðnings leiðandi aðila á sviði bankaþjónustu og greiðslumiðlunar, þ.á.m. DSGV í Þýskalandi, DNB og BankID í Noregi, Nets í Danmörku, Intesa Sanpaolo, PagoPA og ABILab á Ítalíu og Greiðsluveitunnar á Íslandi.

Á meðal tæknifyrirtækja sem munu taka þátt í verkefninu eru Thales, iProov, Signicat, RB, Auðkenni, IPZS, Poste Italiane, Intesi Group, InfoCert, FBK og Latvian State Radio og Television Centre. Söluaðilar sem munu prófa greiðslulausnina eru meðal annars Elkjøp í Noregi og REWE-group í Þýskalandi.

Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands:

„Ísland er stoltur meðumsækjandi NOBID verkefnisins. Að setja á laggirnar tilraunaverkefni með rafrænt auðkennaveski ESB er spennandi en jafnframt krefjandi áskorun. Á Íslandi hefur 95% almennings nú þegar aðgang að rafrænum skilríkjum sem hægt er að nota til að fá aðgang að þjónustu hins opinberra og einkaaðila. Einnig eru rafrænar greiðslur langalgengasta leiðin til að greiða fyrir vörur og þjónustu. Þess vegna teljum við að innviðir okkar og reynsla muni nýtast vel í næsta áfanga þróunar rafræns auðkennaveskis ESB. Við hlökkum mikið til að taka þátt í verkefninu.“

Nánar um rafræna auðkenningu á Íslandi:

  • Níutíu og fimm prósent þjóðarinnar (13 ára og eldri) eru þegar með rafræn skilríki í síma eða á korti, þ.á.m. 75% þeirra sem eru eldri en 75 ára.
  • Íslenskir handhafar rafrænna skilríkja notuðu þau til að auðkenna sig meira en 20 sinnum á mánuði á árinu 2021. Rafrænar undirskriftir eru einnig mikið notaðar.
  • Fjörutíu og sjö prósent þeirra sem eru með ökuskírteini eru nú þegar með stafrænt skírteini í farsímanum sínum, sem er gild auðkenningarleið á Íslandi.
Frekari upplýsingar um verkefnið eru á vefsíðunni NOBID consortium.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum