Hoppa yfir valmynd
15. september 2022 Innviðaráðuneytið

Aðlögunarsamningur Íslands að Eurocontrol undirritaður

Frá undirritun samningsin við höfuðstöðvar Samgöngustofu. - mynd

Í dag var undirritaður aðlögunarsamningur sem markar áform Íslands um að gerast aðili að Eurocontrol frá 1. janúar 2025. Eurocontrol er evrópsk milliríkjastofnun sem hefur allt frá stofnun árið 1960 haft markmið um stuðning við flug og flugleiðsögu í Evrópu. Samkvæmt skilmálum samningsins mun Ísland fá sæti áheyrnarfulltrúa og getur tekið þátt í verkefnum og starfsemi Eurocontrol að sama marki og aðildarríki. Það voru þeir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu og Eamonn Brennan, forstjóri Eurocontol, sem undirrituðu samninginn.

Ef frá eru talin fáein smáríki sem ekki sinna verkefnum sem tengjast loftrýminu er Ísland nú eina Evrópulandið utan aðildar en mun frá 1. janúar 2025 verða 42. aðildarríkið. Viðræður um hugsanlega aðild hafa staðið yfir um árabil en aðlögunarsamningurinn nú var undirritaður að fenginni heimild innviðaráðuneytisins.

Helsti ávinningur aðildar er full þátttaka í miðlægri flæðisstjórnun flugumferðar fyrir samevrópska loftrýmið og samræmdri krísustjórnun vegna t.d. eldgosa og heimsfaraldra. Henni fylgir einnig aðgangur að kerfum, gagnabönkum, greiningarvinnu, tæknilausnum, þjálfun og stuðningi við ýmsa þætti flugmála sem snúa að rekstrarstjórnun flugumferðar, rekstri flugvalla, skilvirkni, öryggi og netvernd svo nokkuð sé nefnt.

Í tilkynningu frá Samgöngustofu af þessu tilefni er haft eftir Jóni Gunnari Jónssyni, forstjóra: „Eftir jákvætt samstarf við Eurocontol á undanförnum árum hefur með undirskrift samningsins verið stigið mikilvægt skref. Vegna landfræðilegrar legu Íslands eru flug og flugleiðsaga einstaklega mikilvæg til grundvallar efnahags og velmegunar þjóðarinnar. Samvinna þjóða á jafningjagrunni stuðlar að uppbyggingu og viðhaldi innviða á sviði flugmála. Með undirritun samningsins hafa stjórnvöld nú staðfest þá fyrirætlun að Ísland gerist fullgildur aðili að Eurocontol.“

Eamonn Brennan: „Ég er ánægður með að undirritun þessa samning sem er mikilvægt skref í átt að samþættingu Íslands sem 42. aðildarríkis Eurocontrol 1. janúar 2025. Við höfum unnið náið með Íslandi í mörg ár og fögnum ákvörðun þeirra um að ganga í Eurocontrol og taka á sig öll réttindi og skyldur aðildarríkja okkar. Ísland er vaxandi áfangastaður í Evrópu – með yfir 150 flug daglega að meðaltali nú í sumar - þannig að frekari samþætting þeirra inn í evrópska netið mun nýtast bæði í rekstrarlegum og stefnumótandi tilgangi.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum