Hoppa yfir valmynd
16. september 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og vinnumarkaðsráðherra styrkir Átak, félag fólks með þroskahömlun

Birna Guðmundsdóttir, verkefnastjóri og aðstoðarmaður Átaks, og Haukur Guðmundsson, formaður Átaks, ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Átaki − félagi fólks með þroskahömlun styrk að upphæð 2,5 milljónum króna.

Styrkurinn er veittur til almennrar starfsemi félagsins og mun gera því kleift að halda áfram hagsmunabaráttu sinni fyrir fatlað fólk, svo sem með samráði við ríki og sveitarfélög, aðkomu að stefnumótun Landssamtakanna Þroskahjálpar, almennri vitundarvakningu um réttindi fólks með þroskahömlun og almennu félagsstarfi. Verkefnið fellur vel að markmiðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, einkum hvað varðar samráð og þátttöku í stefnu og ákvörðunum stjórnvalda, aðgengismál og vitundarvakningu.

Átak hefur verið starfandi síðan árið 1993 en meginhlutverk þess er að gæta hagsmuna félagsmanna, berjast fyrir réttindum fólks með þroskahömlun og vekja athygli á málefnum sem tengjast fólki með þroskahömlun. Mikil áhersla er lögð á valdeflingu einstaklinga, þar með talið að hvetja til sjálfstæðrar búsetu, að einstaklingar geti starfað á almennum vinnumarkaði og notið alls þess sem allir eiga möguleika á að njóta, með eða án stuðnings.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„Það er afar mikilvægt að fólk með þroskahömlun hafi aðgang að svo góðum stuðningi eins og Átak býður sínum félagsmönnum. Hlutverk félagsins endurspeglar á allan hátt það sem ég tel brýnt að leggja áherslu á í stuðningi við þennan hóp og þá á ég einkum við virkni, valdeflingu og stuðning til sjálfstæðis. Það er mér mikil ánægja að geta veitt félaginu styrk svo það geti haldið áfram að sinna sínu góða starfi og veitt félagsmönnum þann stuðning sem á þarf að halda.“

Haukur Guðmundsson, formaður Átaks:

,,Átak metur það mikils að Guðmundur Ingi Guðbrandsson ráðherra styrki félagið um þessa upphæð og þakkar ráðherra fyrir þetta framlag. Með þessu getum við rekið félagið með metnaði út árið og unnið áfram fyrir og með fötluðu fólki. Það skiptir okkur mestu máli.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira