Hoppa yfir valmynd
19. september 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Þráinn fékk heiðursverðlaun og Berdreymi verður framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna

Frá verðlaunaathöfn Eddunnar - myndMyndir: Eddan/Ólafur Hannesson

Kvikmyndagerðamaðurinn og rithöfundurinn Þráinn Bertelsson er heiðursverðlaunahafi Eddu verðlaunanna, en Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra afhenti honum verðlaunin á Eddu verðlaunahátíðinni. Edduverðlaunin eru veitt árlega af Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunni og eru heiðursverðlaun Eddunnar veitt einstaklingum sem hafa sett sitt mark á íslenska kvikmyndasögu með framúrskarandi störfum í þágu íslensks sjónvarpsefnis og kvikmyndagerðar.

Eddan/Ólafur Hannesson

Þráinn Bertelsson er afkastamikill kvikmyndagerðamaður, leikstjóri, framleiðandi og handritshöfundur og eftir hann liggja margar perlur íslenskar kvikmyndasögu, svo sem kvikmyndirnar Magnús, Nýtt líf, Dalalíf og Löggulíf auk sjónvarpsþáttanna Sigla himinfleyg. Þráinn hefur verið komið víða við í íslensku menningarlífi og hefur gert tugi útvarpsþátta, útvarpsleikrit og eftir hann liggja hátt í tuttugu bækur. Skáldsögur, glæpasögur, barnasaga, ævisaga, sjálfsævisögur, þýðingar og nú síðast viðtalsbók við hund. Þá var hann Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður 2009–2013. 

Hér má sjá kynningu á heiðursverðlaunahafanum

Berdreymi er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna

„Það er einstakt tækifæri og heiður að fá að kynna framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna í flokknum „besta alþjóðlega myndin“,“ sagði Lilja, en kvikmyndin Berdreymi eftir leikstjórann Guðmund Arnar Guðmundsson var valin framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2023. Framlagið var valið af dómnefnd sem skipuð er aðilum úr stjórnum fagfélaga í kvikmyndaiðnaði auk fulltrúa frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, kvikmyndahúsa og kvikmyndagagnrýnenda. „Hér er á ferðinni áleitin saga sem er sett fram af látleysi og yfirvegun og leyfir sér að ganga nálægt áhorfanda. Einstök frammistaða og hugrekki ungra leikara á sérstakt lof skilið fyrir stóran þátt sinn í áhrifamætti verksins. Tónn, andi og tilfinning frásagnarinnar nýtir möguleika formsins á eftirtektarverðan hátt sem skilar sér í hrárri og sterkri kvikmynda upplifun,“ segir í umsögn dómnefndar. 

 

 

Fjögur þúsund manns starfa við kvikmyndagerð

Eddu verðlaunin eru hátíð íslenskrar kvikmyndagerðar og ræddi ráðherra um mikilvægi greinarinnar fyrir íslenskt menningar- og atvinnulíf.

„Á þeim 23 árum sem liðið hafa frá upphafi hátíðarinnar hefur kvikmyndaiðnaðurinn stækkað umtalsvert. Hver gersemin á fætur annarri hefur litið dagsins ljós, þjóðinni til yndisauka og afþreyingar. Sökum heimsfaraldursins eru þrjú ár síðan kvikmynda- og sjónvarpsfólk gat síðast komið saman og notið þessarar kvöldstundar. En hér erum við mætt loksins til að fagna í sameiningu stórgóðum árangri sjónvarps- og kvikmyndagerðar á Íslandi á síðasta ári.

Velta íslensks kvikmyndaiðnaðar hefur að undanförnu farið fram úr björtustu vonum þrátt fyrir erfiðar aðstæður, en hún nemur nú um 30 milljörðum króna á ársgrundvelli. Vel á fjórða þúsund einstaklinga starfa við kvikmyndagerð. Það er því ljóst að íslensk kvikmyndagerð stendur í blóma og var ein þeirra listgreina sem náði að halda dampi undanfarin ár þegar heimsfaraldur geisaði,“ sagði Lilja í ávarpi sínu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira