Hoppa yfir valmynd
21. september 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Sidekick Health og Lauf Forks handhafar Nýsköpunarverðlauna Íslands

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ásamt verðlaunahöfum. Tryggvi Þorgeirsson, læknir og forstjóri Sidekick Health (vinstri) og Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri Lauf Forks (hægri) tóku við Nýsköpunarverðlaunum Íslands fyrir hönd fyrirtækjanna. - mynd

Nýsköpunarverðlaun Íslands voru afhent á Nýsköpunarþingi sem fram fór í gær, 20. september. Veitt voru verðlaun fyrir árin 2021 og 2022 og voru það fyrirtækin Lauf Forks og Sidekick Health sem hlutu Nýsköpunarverðlaunin. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, flutti ávarp á Nýsköpunarþingi en yfirskrift þingsins í ár var Hugvitið út! – Hvernig verður hugvit stærsta útflutningsgrein Íslands?. Ráðherra afhenti einnig Nýsköpunarverðlaunin en Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri Lauf Forks og Tryggvi Þorgeirsson, læknir og forstjóri Sidekick Health, veittu verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækjanna. 

Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Hugverkastofu, Rannís, Íslandsstofu og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem þykja skara fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. 

Sidekick Health

Nýsköpunarverðlaun Íslands 2022 hlýtur Sidekick Health. Fyrirtækið þróar og markaðssetur stafrænar heilbrigðismeðferðir í samstarfi við stærstu lyfja- og sjúkratryggingafélög í bæði Evrópu og Bandaríkjunum. Markmið Sidekick Health er að styðja við sjúklinga utan veggja heilbrigðiskerfisins og draga þannig úr álagi á heilbrigðisstarfsfólk og auka virkni hefðbundinna heilbrigðismeðferða. Þá vinnur Sidekick Health einnig að rannsóknarverkefnum í nánu samstarfi við heilbrigðisstofnanir hér á landi sem og erlendis. 

Lauf Forks

Lauf Forks er handhafi Nýsköpunarverðlauna Íslands 2021. Fyrirtækið var stofnað árið 2011 út frá hugmynd að framúrstefnulegum fjöðrunargaffli fyrir reiðhjól sem var sérhannaður fyrir lítil högg, en á þeim tíma var aðeins að finna stífa gaffla án fjöðrunar  fyrir stærri högg og fjallahjólreiðar á markaði. Þróunarvinna Lauf hefur leitt af sér fjöðrunartækni sem hefur algjöra sérstöðu á markaði og er einkaleyfisvarin. Helsta afurð fyrirtækisins í dag eru hjól í flokki malarhjóla sem byggja á fjöðrunartækninni. 

Nánar má lesa um verðlaunin og verðlaunahafa á vefsíðu Hugverkastofunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum