Hoppa yfir valmynd
22. september 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Finnsk sendinefnd kynnir sér mikla atvinnuþátttöku á Íslandi

Hópurinn frá Finnlandi í heimsókn hjá VIRK-starfsendurhæfingarsjóði. - mynd

Finnsk sendinefnd var stödd hér á landi á dögunum til að kynna sér þær aðferðir sem Ísland hefur beitt í gegnum tíðina til að viðhalda mikilli atvinnuþátttöku. Um var að ræða starfsmenn í ráðuneyti vinnumála í Finnlandi og undirstofnun hennar sem heldur meðal annars utan um stórt rannsóknarverkefni er snýr að því að auka atvinnuþátttöku hópa með mismikla starfsgetu. 

Sendinefndin vinnur samkvæmt stefnu stjórnvalda í Finnlandi um að koma atvinnuþátttöku upp í 75% en til samanburðar er atvinnuþátttaka hér á landi í kringum 80%. Hópurinn kynnti sér meðal annars áherslumál félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, sem snúa að umbyltingu greiðslu- og þjónustukerfis almannatrygginga vegna starfsgetumissis og vinnu samhæfingarnefndar um velferð og virkni á vinnumarkaði en leiðarljós hennar er að blása til sóknar á íslenskum vinnumarkaði með áherslu á réttlát umskipti, jöfn tækifæri til vinnu og velferð fólks á vinnumarkaði.

Hópurinn frá Finnlandi fékk auk þess kynningu á fæðingar- og foreldraorlofi hér á landi, nýjum lögum um sorgarleyfi vegna barnsmissis og fyrirkomulagi framhaldssfræðslu sem styður við nám, virkni og atvinnuþátttöku. Auk þess kynntist hann starfsemi Vinnumálastofnunar og heimsótti bæði Vinnueftirlitið og VIRK-Starfsendurhæfingarsjóð.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum