Hoppa yfir valmynd
23. september 2022 Matvælaráðuneytið

Fjárfesting í þekkingu á umhverfi sjávar besta leiðin

Samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu ásamt gestum annars fundar nefndarinnar sem haldinn var 15. september 2022 - myndGunnar Vigfússon

Á öðrum fundi samráðsnefndar um sjávarútvegsstefnu kynnti Jóhann Sigurjónsson, fyrrum forstjóri Hafrannsóknarstofnunnar, greinargerð um stöðu haf- og fiskirannsókna. Greinargerðin sem verður gerð opinber á næstu vikum, er unnin að beiðni Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra og er ætlað að gefa yfirlit um stöðu haf- og fiskirannsókna á Íslandi, mikilvægi þeirra og leiðir til að efla þær á næstu árum og áratugum.

Í greinargerðinni eru lagðar fram tillögur um hvernig efla megi rannsóknir og þekkingu á lífríki hafsins, meðal annars með auknu samstarfi við sjávarútveg og háskólastofnanir.
Fram kemur að þjóðhagslegur ávinningur er af því að hafa heilbrigt umhverfi og sterka nytjastofna, og fjárfesting í þekkingu á umhverfi sjávar sé besta leiðin til sjálfbærrar auðlindanýtingar. Í því samhengi spili Hafrannsóknastofnun lykilhlutverk sem rannsókna- og ráðgjafastofnun.

Samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu er hluti af verkefninu Auðlindin okkar – stefna um sjávarútveg. Í nefndinni sitja 27 manns en samráðsnefndin hefur yfirsýn yfir starf fjögurra sjálfstæðra starfshópa um tiltekin verkefni. Starfshóparnir eru Samfélag, Aðgengi, Umgengni og Tækifæri. Gert er ráð fyrir að samráðsnefndin starfi til loka ársins 2023 þegar hóparnir hafa skilað sinni vinnu.

Markmið matvælaráðherra með þessu starfi er hagkvæm og sjálfbær nýting sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag. Lögð er áhersla á opið og gagnsætt ferli við verkefnið. Á næstu dögum verður opnuð heimasíða með upplýsingum um verkefnið þar sem einnig verður hægt að hafa samband og koma að fyrirspurnum, ábendingum og hugmyndum.

Fyrirhugaðar lokaafurðir verkefnisins Auðlindin okkar – stefna um sjávarútveg eru meðal annars ný heildarlög um stjórn fiskveiða eða ný lög um auðlindir hafsins og aðrar lagabreytingar, verkefni á sviði orkuskipta, nýsköpunar, stafrænnar umbreytingar, hafrannsókna og gagnsæi og kortlagning eignatengsla í sjávarútvegi.

Samráðsnefnd um stefnu í sjávarútvegi er þannig skipuð:

 • Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, formaður
 • Ásmundur Friðriksson, tilnefndur af Sjálfstæðisflokki
 • Stefán Vagn Stefánsson, tilnefndur af Framsóknarflokki
 • Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, tilnefnd af Vinstrihreyfingunni- grænt framboð
 • Oddný Harðardóttir, tilnefnd af Samfylkingunni
 • Mörður Áslaugarson, tilnefndur af Pírötum
 • Hanna Katrín Friðriksson, tilnefnd af Viðreisn
 • Eyjólfur Ármannsson, tilnefndur af Flokki fólksins
 • Sigurður Páll Jónsson, tilnefndur af Miðflokknum
 • Jón Björn Hákonarson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
 • Vífill Karlsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
 • Heiðrún Lind Marteinsdóttir, tilnefnd af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi
 • Ólafur Marteinsson, tilnefndur af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi
 • Arthur Bogason, tilnefndur af Landssambandi smábátasjómanna
 • Arnar Atlason, tilnefndur af Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda
 • Örvar Marteinsson, tilnefndur af Samtökum smærri útgerða
 • Páll Rúnar M. Kristjánsson, tilnefndur af Félagi atvinnurekenda
 • Valmundur Valmundsson, tilnefndur af Sjómannasambandi Íslands
 • Árni Bjarnason, tilnefndur af Félagi skipstjórnarmanna
 • J. Snæfríður Einarsdóttir, tilnefnd af Félagi vélstjóra og málmtæknimanna
 • Sigurbjörg Árnadóttir, tilnefnd af Náttúruverndarsamtökum Íslands
 • Auður Önnu Magnúsdóttir, tilnefnd af Landvernd
 • Sigrún Perla Gísladóttir, tilnefnd af Ungum umhverfissinnum
 • Gunnar Haraldsson, formaður starfshópsins Samfélag
 • Gréta María Grétarsdóttir, formaður starfshópsins Umgengni
 • Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður starfshópsins Aðgengi
 • Ingunn Agnes Kro, formaður starfshópsins Tækifæri

 • Fjárfesting í þekkingu á umhverfi sjávar besta leiðin - mynd úr myndasafni númer 1
 • Fjárfesting í þekkingu á umhverfi sjávar besta leiðin - mynd úr myndasafni númer 2
 • Fjárfesting í þekkingu á umhverfi sjávar besta leiðin - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur
9. Nýsköpun og uppbygging
14. Líf í vatni
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum