Hoppa yfir valmynd
5. október 2022 Matvælaráðuneytið

Vinna hafin við kortlagningu stjórnunar- og eignatengsla í sjávarútvegi

Í samræmi við stjórnarsáttmála og áherslur Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra vinnur matvælaráðuneytið nú að heildarstefnumótun í sjávarútvegi undir yfirskriftinni Auðlindin okkar. Liður í því starfi er kortlagning stjórnunar- og eignatengsla í sjávarútvegi.

Markmið þeirrar vinnu er að stuðla að gagnsæi í eignarhaldi sjávarútvegsfyrirtækja ásamt upplýstri stefnumótun stjórnvalda um regluumgjörð sjávarútvegs og breytingar á henni.
Einnig að farið sé að lögum og reglum á þessu sviði og eftirlitsstofnanir geti sinnt hlutverki sínu.

Eftirlitsstofnanir sem hafa það hlutverk að fylgjast með stjórnunar- og eignatengslum í íslensku atvinnulífi hafa að eigin frumkvæði áformað að efla samstarf með það að markmiði að skapa betri yfirsýn yfir stjórnunar- og eignatengsl, nýta betur þekkingu á því sviði og styrkja greiningu og nauðsynleg úrræði.

Matvælaráðuneytið hefur gert samning við Samkeppniseftirlitið um að tryggja fjárhagslegt svigrúm til að stofnunin geti ráðist í athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Samhliða er stefnt að auknu samstarfi stofnana á þessu sviði, þ.e. Samkeppniseftirlitsins, Fiskistofu, Skattsins og Seðlabanka Íslands.

Athuguninni er fyrst og fremst ætlað að auka gagnsæi og bæta stjórnsýslu á sviði eftirlits með stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Í athuguninni felst upplýsingasöfnun og kortlagning eignatengsla sjávarútvegsfyrirtækja sem hafa fengið úthlutað ákveðnu umfangi aflaheimilda og áhrifavaldi eigenda sjávarútvegsfyrirtækja í gegnum beitingu atkvæðisréttar og stjórnarsetu í fyrirtækjum.

Framangreind kortlagning verður sett fram í sérstakri skýrslu. Skýrslan verður afhent matvælaráðuneytinu eigi síðar en 31. desember 2023 og verður því aðgengileg ráðuneytinu í stefnumótunarvinnu um sjávarútveginn.

Skýrslan mun ekki fjalla um ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins eða annarra eftirlitsstofnana um frekari athuganir eða íhlutun á grundvelli starfsheimilda eða starfsskyldna samkvæmt hlutaðeigandi lögum. Hún mun hins vegar nýtast Samkeppniseftirlitinu, Fiskistofu, Skattinum og Seðlabanka Íslands við þekkingaruppbyggingu og við beitingu lagafyrirmæla á viðkomandi sviði. Við vinnslu skýrslunnar er stefnt að því að mótuð verði upplýsingatækniumgjörð sem nýtist við frekari kortlagningu og eftirlit með stjórnunar- og eignatengslum í íslensku atvinnulífi almennt.

Nánari upplýsingar um verkefnið Auðlindin okkar má finna á vefsíðu verkefnisins ásamt upplýsingum um skipan í starfshópa og gagnasafni með lögum, dómum, frumvörpum, álitum og úrskurðum sem tengjast sjávarútvegi.
Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum