Hoppa yfir valmynd
11. október 2022 Utanríkisráðuneytið

Ljósmyndasýning um barnungar mæður í þróunarríkjum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna, og Pernille Fenger, skrifstofustjóri norrænu skrifstofu UNFPA. - mynd

Í dag var ljósmyndasýning Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) um barnungar mæður í þróunarríkjum opnuð í Smáralind. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra opnaði sýninguna og flutti ávarp. 

„Með sýningunni er verið að ljá stúlkum rödd sem ekki hafa hana almennt ekki. Það er ekki á hverjum degi að við fáum innsýn í heim ungra stúlkna í fátækari ríkjum heims og það er svo sannarlega mikilvægt að þeirra rödd fái að heyrast ef uppfylla á markmið okkar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, bauð fólk velkomið en Félag Sameinuðu þjóðanna hefur umsjón með verkefninu og hlaut til þess styrk frá utanríkisráðuneytinu fyrr á árinu. Þá sagði Pernille Fenger, skrifstofustjóri norrænu skrifstofu UNFPA, frá sýningunni sem samanstendur af ljósmyndum eftir Pieter ten Hoopen frá verkefnasvæðum UNFPA. Nemendur úr 9. og 10. bekk Salaskóla voru einnig viðstaddir opnunina. 

UNFPA áætlar að á hverju ári eignist um tvær milljónir stúlkna undir 15 ára aldri börn. Slíkar áhættumeðgöngur geta haft í för með sér alvarleg heilsufarsleg vandamál sem hefur gríðarleg áhrif á lífsgæði þeirra.

Íslensk stjórnvöld hafa stutt við margvísleg verkefni UNFPA, meðal annars í Malaví og Síerra Leóne, sem eru samtarfsríki Íslands á sviði tvíhliða þróunarsamvinnu, um afnám barnahjónabanda og aðgengi að skurðaðgerðum vegna fæðingarfistils. Þar að auki hefur Ísland lengi stutt við samstarfsverkefnis UNFPA og UNICEF um afnám kynfæralimlestinga á konum og stúlkum í 17 löndum.  

Sýningin er sett upp í tilefni af alþjóðlegum degi stúlkubarnsins 11. október. Í dag tilkynnti ráðherra sömuleiðis um framlag til jafnréttissjóðs UNICEF sem nemur tæplega 30 milljónum króna árlega næstu þrjú árin. Sjóðurinn gegnir lykilhlutverki í að ýta úr vör verkefnum stofnunarinnar sem hafa að meginmarkmiði að bæta menntun fátækra stúlkna og skapa þeim tækifæri.

 
  • Ljósmyndasýning um barnungar mæður í þróunarríkjum - mynd úr myndasafni númer 1
  • Ljósmyndasýning um barnungar mæður í þróunarríkjum - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum