Hoppa yfir valmynd
12. október 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ísland býður erlenda sérfræðinga velkomna​

Greiður aðgangur að sérhæfðri þekkingu er ein mikilvægasta forsenda þess að áform um vöxt fyrirtækja í hugverkaiðnaði og sprotafyrirtækja verði að veruleika. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að auðvelda skuli íslenskum fyrirtækjum að ráða til sín sérfræðinga frá löndum utan EES svæðisins og hefur markviss vinna farið fram innan háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, í samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, við að kortleggja þessa áskorun og móta tillögur.

„Ef okkur tekst vel til í að greiða aðgang að sérhæfðri þekkingu getum við aukið nýsköpun, hagvöxt, fjölgað störfum og aukið útflutningstekjur. Þetta eru fyrstu aðgerðirnar til að ná þeim markmiðum,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Verkefnið er jafn víðfeðmt og það er mikilvægt. Ljóst er að þörf er á sameiginlegri stefnumörkun og samvinnu stjórnvalda enda nauðsynlegt að líta til fjölmargra þátta. Fjórar leiðir hafa nú verið kynntar fyrir ríkisstjórn sem ætlað er að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga og aðgengi að sérhæfðri þekkingu, en þær falla undir ábyrgðarsvið nokkurra ráðuneyta. Tillögurnar eru lagðar fram með aukið svigrúm og skilvirkni að leiðarljósi.

„Þeirri vinnu sem nú er í gangi við að einfalda og skýra regluverkið er meðal annars ætlað að auðvelda íslenskum fyrirtækjum að ráða sérfræðinga í vinnu sem búa yfir mannauð og þekkingu sem getur nýst Íslandi vel og eflt samkeppnishæfni landsins,“­ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Fleiri atvinnuleyfi með sérhæfðri þekkingu

Lagt er til að gerðar verði breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga í leið sem nefnd hefur verið Starfalisti fyrir sérhæfða þekkingu. Breytingin felur í sér heimild til að gefa út atvinnuleyfi vegna starfa sem krefjast sérhæfðar þekkingar sem tímabundinn skortur er á hér á landi. Listi verður gefinn út sem tilgreinir slík störf og í framhaldi verður unnt að gefa út fleiri atvinnuleyfi á mun skemmri tíma en nú er auk þess sem fyrirsjáanleiki eykst fyrir fólk og fyrirtæki. „Skortur á sérfræðiþekkingu er hindrun í vegi vaxtar hjá fjölda fyrirtækja,“ segir Áslaug Arna.

Þá verður í samvinnu við viðeigandi stofnanir sett aukið púður í að gera aðgengilegt og öflugt en þó einfalt upplýsinga- og umsóknarferli þar sem nálgast má allar upplýsingar og eyðublöð á einum stað. Er þetta sérstaklega hugsað fyrir þau sem ekki falla undir starfalistann til að einfalda umsóknarferlið og bæta upplýsingagjöf með það að markmiði að hraða afgreiðslu með aukinni skilvirkni og bættum upplýsingum. Kerfið mun nýtast sem fyrirmynd að tímabærum endurbótum á heildrænu upplýsinga- og umsóknarkerfi fyrir fleiri hópa hér á landi.

Háskólar á Íslandi verði eftirsóknarverðir fyrir námsmenn óháð þjóðerni

Með það að markmiði að íslenskir háskólar verði eftirsóknarverður valkostur jafnt fyrir íslenska og erlenda námsmenn er lagt til að námsframboð á greinum sem kenndar eru á ensku verði aukið. Í kjölfar útskriftar úr háskólanámi fái nemendur frá löndum utan EES a.m.k. tveggja ára dvalarleyfi til þess að leita að atvinnu hér á landi á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar. Fjölgun erlendra háskólanema felur í sér bæði eflingu háskólanna sem og fjárfestingu í þekkingu fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf.  

Loks er lagt til að erlendum sérfræðingum sem stunda fjarvinnu á Íslandi verði gert auðveldara að starfa óháð staðsetningu. Reglur um fjarvinnu erlendra sérfræðinga voru rýmkaðar í heimsfaraldrinum og þar sem það gaf góða raun er stefnt að frekari rýmkun þessara reglna.

Stjórnvöld styðji við leiðirnar með áherslu á alþjóðlega samkeppni og eflingu innviða

Þá eru lagðar til stuðningsaðgerðir sem stjórnvöld þurfa að skoða til að styðja við ofangreindar leiðir. Til að mynda er leitast eftir því að íslensk stjórnvöld sendi skýr skilaboð þess efnis að Ísland bjóði erlenda sérfræðinga velkomna með markvissri markaðssetningu þess efnis. Þá er einnig mikilvægt að meta árangur og móta frekari aðgerðir. Til þess þarf traustar upplýsingar og gögn um atriði á borð við hagræn áhrif hugverkaiðnaðarins og mannaflaþörf. Reglur um skattfrádrátt verða að vera fyrirsjáanlegar sem og aðrar ívilnanir svo Ísland standist alþjóðlegan samanburð þegar kemur að sérhæfðri þekkingu. Skoða þarf ávinning þess að sérfræðingar í alþjóðlegum fyrirtækjum hafi svigrúm til að flytjast milli starfsstöðva. Þá þarf að skoða reglur um sjálfstætt starfandi einstaklinga. Loks er mikilvægt að efla innviði og umhverfi fyrir fjölskyldur erlendra sérfræðinga, enda ljóst að litið er til námsframboðs fyrir börn og ungmenni þegar búsetuland er valið til skamms tíma, auk þess sem þörf er á auknu aðgengi að íslenskukennslu fyrir erlendar fjölskyldur sem ætla að setjast hér að.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum