Hoppa yfir valmynd
14. október 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Rætt um flóttafólk frá Úkraínu og hækkandi orkuverð á ráðherrafundi í Tékklandi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson með Marian Jurečka, aðstoðarforsætisráðherra Tékklands og félags- og vinnumarkaðsráðherra, í upphafi fundar. Tékkland fer nú með formennsku í Evrópusambandinu.  - myndCZ PRES

Móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi hefur reynst afar vel en þar má finna undir einu þaki alla helstu nauðsynlegu þjónustu sem þörf er á strax við komuna til landsins. Miðstöðin í Domus Medica var opnuð í vor og þar fer meðal annars fram skráning flóttafólks og heilsufarsskoðun, auk þess sem Vinnumálastofnun miðlar fólki í vinnu. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, á óformlegum ráðherrafundi félags- og vinnumarkaðsráðherra Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna í Prag í gær og í dag.

Tvö mál eru í forgrunni á fundinum, annars vegar aðlögun flóttafólks frá Úkraínu að vinnumarkaði í löndum Evrópu og hins vegar hækkandi orkuverð í álfunni og áhrif þess á fólk í viðkvæmri stöðu.

Guðmundur Ingi undirstrikaði að fjölmargar sólskinssögur mætti segja af úkraínsku flóttafólki sem komist hefði inn á vinnumarkaðinn á Íslandi þrátt fyrir að hafa einungis verið á landinu í stuttan tíma. Kynjaskiptingin sé jöfn og fólkið hafi afar fjölbreytta menntun og reynslu. Vísbendingar eru þó um að störfin sem Úkraínubúar fá á Íslandi séu ekki fyllilega í takti við menntun þeirra og reynslu. Guðmundur Ingi lagði áherslu á að mikilvægt væri að viðurkenna í enn ríkari mæli reynslu og menntun fólks á milli landa.

Atvinnuþátttaka innflytjenda á Íslandi er með því hæsta sem þekkist í ríkjum OECD. Guðmundur Ingi benti á að þegar borinn væri saman fjöldi atvinnuleyfa og fjöldi fólks frá Úkraínu á þessu ári, 18 ára og eldri, mætti álykta að yfir 40% þeirra hefði nú þegar fengið atvinnuleyfi og væri á vinnumarkaði. Enn fremur sagði hann frá þjónustu Vinnumálastofnunar við flóttafólk í atvinnuleit sem felst meðal annars í aðstoð við atvinnuleit og samfélagsfræðslu, auk þess sem fólki er beint í íslenskunám. Ráðherra sagði þessa opinberu þjónustu vera að skila góðum árangri.

Guðmundur Ingi lagði jafnframt áherslu á að tryggja þurfi að flóttafólk frá öðrum löndum fái sambærilegar móttökur og Úkraínubúar og koma í veg fyrir hvers kyns mismunun milli mismunandi hópa flóttafólks.

Í máli hinna ráðherranna á fundinum kom fram að flest ríki takist nú á við sömu eða sambærilegar áskoranir hvað varðar húsnæðisskort, tungumálanám og þátttöku barna í leik- og grunnskólum. Brýnt væri að horfa sérstaklega til viðkvæmra hópa á borð við fatlað fólk, börn og eldra fólk. Fram kom að fundargestir hefðu aldrei fundið fyrir jafnmikilli samstöðu og nú gagnvart verkefninu sem Evrópa tækist á við.

Í umræðu um orkumál hvatti Guðmundur Ingi önnur ríki til að flýta fjárfestingum í endurnýjanlegum orkugjöfum sem slá myndi tvær flugur í einu höggi – draga úr neikvæðum áhrifum á loftslag og gera ríki minna háð öðrum ríkjum um orkuöryggi sem væri einn lykillinn að stöðugleika á orkumarkaði. Ráðherra sagði frá stöðunni á Íslandi, sem er einstök í Evrópu, en nærri 100% raforku og húshitunar kemur frá innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum og orkuverð hefur haldist stöðugt.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum