Hoppa yfir valmynd
17. október 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra á Arctic Circle

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í ræðustól á Arctic Circle 2022. - myndArctic Circle

Þriggja daga þingi Hringborðs norðurslóða – Arctic Circle, lauk í Hörpu á laugardag en utanríkisráðuneytið var einn af bakhjörlum ráðstefnunnar. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók síðdegis á laugardag þátt í pallborðsumræðum Helsinki Security Forum um alþjóðleg öryggismál og flutti hún ávarp við það tækifæri.

„Það hættuástand sem ríkir nú í kjölfar árásarstríðs Rússlands getur haft alvarlegar afleiðingar til lengri tíma. Á meðan framganga Rússlandsforseta er jafn ófyrirsjánleg og raun ber vitni er skiljanlegt að umræður um norðurslóðir einkennist af áhyggjum okkar af öryggisógnum. Við verðum samt að hafa það hugfast, hvort sem horft er til lengri eða skemmri tíma, að norðurslóðir eru viðkvæmt svæði sem verður áfram háð friðsamlegri samvinnu þjóða, löngu eftir að stríði Pútíns lýkur,“ sagði Þórdís Kolbrún í ræðu sinni.

Fyrr um daginn átti hún fund með Rob Bauer, formanni hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins um þróun öryggismála í Evrópu í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu, aukinn varnarviðbúnað bandalagsins og viðbragðsgetu á Norður-Atlantshafi.

Á föstudag átti Þórdís Kolbrún tvíhliða fundi Jenis av Rana, utanríkis- og menningarmálaráðherra Færeyja, og Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra Grænlands. Þá funduðu ráðherrarnir þrír saman í utanríkisráðuneytinu. Utanríkisráðherra ávarpaði síðar um daginn samkomu í Safnahúsinu sem sendiráð Kanada stóð fyrir til heiðurs Mary Simon, landsstjóra Kanada sem stödd var hér á landi.

Á fimmtudag hóf Þórdís Kolbrún daginn á því að sækja morgunverðarfund Hákons krónprins Noregs, í Hörpu og flutti hún ávarp við það tækifæri. Síðar um morguninn hitti hún sendinefnd á vegum Maine North Atlantic Development Office frá Maine-ríki í Bandaríkjunum. Samskiptin við fulltrúa Maine eru með miklum ágætum en skemmst er að minnast fundar þeirra Þórdísar Kolbrúnar og Chellie Pingree, þingkonu frá Maine, í Washington DC í síðastliðnum mánuði en Pingree lagði fyrr á þessu ári fram svonefnt Íslandsfrumvarp á Bandaríkjaþingi.

Þá átti Þórdís Kolbrún fund með Angus Robertson, utanríkisráðherra í skosku heimastjórninni á fimmtudag. Góð tengsl Íslands og Skotlands voru til umræðu, þar á meðal stefna Skotlands í grænni fjármögnun og norðurslóðamálum. Þá var rætt um komandi formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á næsta ári og samstarfsmöguleika í því samhengi. Síðar um daginn hittust þau Derek Chollet, háttsettur embættismaður í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Á fundi þeirra voru málefni norðurslóða efst á baugi. Einnig var rætt um stríðið í Úkraínu, siglingavernd, fjárfestingarýni og aðild Svíþjóðar og Finnlands að Atlantshafsbandalaginu. Um kvöldið bauð svo ráðherra til hátíðarmóttöku í Hörpu af tilefni Hringborðs norðurslóða.

Í aðdraganda ráðstefnunnar fundaði svo utanríkisráðherra með Sim Ann, ráðherra í utanríkisráðuneyti Singapúr, á þriðjudag. Þar voru norðurslóðasamstarf og þau áhrif sem stríðið í Úkraínu hefur á gang mála til umræðu. Auk þess var vikið að samstarfi þjóðanna á sviði rafrænna viðskipta.

  • Ráðherra bauð til hátíðarmóttöku í Hörpu af tilefni Hringborðs norðurslóða. - mynd
  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hitti sendinefnd á vegum Maine North Atlantic Development Office frá Maine-ríki í Bandaríkjunum. - mynd
  • Þórdís Kolbrún átti fund með Jenis av Rana, utanríkis- og menningarmálaráðherra Færeyja, og Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra Grænlands. - mynd
  • Þórdís Kolbrún sótti morgunverðarfund Hákons krónprins Noregs. - mynd
  • Utanríkisráðherra ávarpaði samkomu í Safnahúsinu sem sendiráð Kanada stóð fyrir til heiðurs Mary Simon, landsstjóra Kanada. - mynd
  • Málefni norðurslóða voru efst á baugi á fundi ráðherra með Derek Chollet. - mynd
  • Þórdís Kolbrún átti fund með Angus Robertson, utanríkisráðherra í skosku heimastjórninni á fimmtudag. - mynd
  • Þórdís Kolbrún fundaði með Rob Bauer, formanni hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins á laugardag.  - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum