Hoppa yfir valmynd
17. október 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Viðamiklar breytingar á menntakerfinu

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnti í dag viðamiklar breytingar sem ráðist verður í á menntakerfinu. Skólaþjónusta verður styrkt þvert á skólastig með nýjum heildarlögum um skólaþjónustu og nýrri stofnun. Menntamálastofnun verður lögð niður.

Hlutverk nýrrar stofnunar er að tryggja gæði menntunar og aðgengi allra nemenda, foreldra og starfsfólks skóla að samþættri, heildstæðri skólaþjónustu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Aðgerðirnar eru liður í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030, samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og Barnvænu Íslandi.

„Engin heildarlöggjöf er til staðar um skólaþjónustu fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og engin miðlæg stofnun með skilgreint hlutverk að framkvæma og samhæfa þessa þjónustu. Aðgengi að þjónustu og ráðgjöf er mismunandi, bæði milli og innan skólastiga og sveitarfélaga, sem leiðir til ójafnræðis,“ segir Ásmundur. „Við þurfum að samhæfa kerfin til að tryggja yfirsýn, skilvirkni og gæði þjónustunnar, svo sem þegar nemendur flytjast á milli skóla eða færast milli skólastiga. Meiri ráðgjöf við starfsfólk skóla og stuðningur við skólastarfið leiðir til hraðari og skilvirkari úrræða fyrir börn og ungmenni. Allt sem við gerum á að miða að farsæld þeirra.“

Markmið nýrra laga um skólaþjónustu er að tryggja öllum skólum faglegt bakland í sínum fjölbreyttu verkefnum ásamt því að efla þverfaglega samvinnu milli skóla-, félags- og heilbrigðisþjónustu í þágu nemenda.

Ný stofnun tekur við hluta verkefna Menntamálastofnunar. Eftirlit með skólastarfi verður aðgreint frá þjónustu og ráðgjöf og færist til mennta- og barnamálaráðuneytisins fyrst um sinn.

Þórdís Jóna Sigurðardóttir er nýr forstjóri Menntamálastofnunar. Hún mun gegna embætti forstjóra nýrrar stofnunar þegar Menntamálastofnun verður lögð niður og vinna að uppbyggingu hennar.

Áformin eru komin í samráðsgátt stjórnvalda og kallar mennta- og barnamálaráðuneytið eftir umsögnum. Í kjölfarið er fyrirhugað að eiga víðtækt samráð við haghafa um verkefni nýrrar stofnunar og útfærslu skólaþjónustu til framtíðar.

Uppfært 17.10.22 kl. 14:03 & 15:28

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum