Hoppa yfir valmynd
19. október 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mikill gangur í norrænu samstarfi um stafræna þjónustu

Ráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja ræddu stafræna þróun.  - myndNorden.org / Torbjørn Tandberg

Mikill gangur er um þessar mundir í samstarfi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á sviði stafrænnar þjónustu. Á nýlegum fundi ráðherra sem fara með stafræn málefni í þessum löndum (MR-Digital) var sérstaklega rætt um að samþætta þá tæknilegu innviði sem löndin hafa byggt upp, auka samvinnu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í þjónustu þvert á landamæri og aukna sam- og hagnýtingu gagna milli ríkjanna.

Ráðherrarnir lýstu því á fundinum að löndin myndu áfram stefna að því að Norðurlönd og Eystrasaltsríki verði í fararbroddi stafvæðingar á heimsvísu og að samstarf þjóðanna á þessu sviði yrði treyst frekar. Er þar einkum horft til netöryggis, sérstaklega í stafrænni, opinberri þjónustu. Atburðir undanfarinna missera, svo sem stafrænn hernaður líkt og þekkst hefur eftir innrás Rússlands í Úkraínu, ásamt skipulagðri netglæpastarfsemi, undirstrika þörfina á að byggja upp varnir ríkjanna sem reiða sig mjög á stafræna þjónustu.

Jafnframt var rætt um nýtingu gagna til að auka aðgengi að sjálfbærri, stafrænni þjónustu og hvernig gagnadeiling styður við sjálfbærnimarkmið landanna. Markviss notkun gagna styður fyrirtæki og stjórnvöld í stafrænni vegferð og í átt að sínum sjálfbærnimarkmiðum. Á fundinum var þetta m.a. rætt í samhengi við fiskveiðar og matvælaframleiðslu á Norðurslóðum.

Þjónustur sem nýtast þvert á landamæri

Frá því að MR-DIGITAL var komið á fót árið 2017 hefur nefndin unnið að sameiginlegum stafrænum verkefnum og þjónustum sem nýtast þvert á landamæri. Eitt verkefnanna, Cross Border Digital Services Programme, stuðlar að auknum hreyfanleika og samhæfingu innan svæðisins. Markviss uppbygging 5G er ennfremur eitt áhersluverkefnanna.

Áherslur Íslands á formennskuári norrænu ráðherranefndarinnar árið 2023 þegar kemur að stafrænni þjónustu munu verða að styðja við aukna þjónustu og deilingu gagna þvert á landamæri. Þrátt fyrir að mikil undirbúningsvinna hafi átt sér stað síðastliðin misseri er mikið verk óunnið sem Ísland hyggst beita sér fyrir í áframhaldandi samvinnu landanna.

Ísland tekur um þessar mundir þátt í í samevrópsku verkefni um rafrænt auðkennaveski (EU Wallet) og eru þrjú Norðurlönd og eitt Eystrasaltsríki hluti af þeirri umsókn. Að auki er unnið að rafrænu ökuskírteini, sem ætlað er að verði fullgilt ökuskírteini milli landanna þegar fram líða stundir.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sat fund ráðherranna og tók að því loknu þátt í ráðstefnunni Digital North, þar sem einkum var fjallað um sjálfbærni ríkjanna. Er það í takti við hina sameiginlegu yfirlýsingu ríkjanna, Digital North 2.0, hvar kemur fram að Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin hafi það markmið að verða sjálfbærasta efnahagssvæði í heiminum. Á ráðstefnunni ræddi ráðherra sjálfbærni fiskveiða á Íslandi og hvernig nýsköpun í sjávarútvegi hefur leitt af sér aukna nýtingu á veiddum afla og þar með aukið verðmætasköpun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira