Hoppa yfir valmynd
28. október 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þátttaka flóttakvenna mikilvæg á vinnumarkaði

Guðmundur Ingi Guðbrandsson ásamt Högna Kristjánssyni, sendiherra Íslands í Noregi, Nancy Herz, ráðuneytisstjóra í norska ráðuneytinu sem sér um innflytjendur og flóttafólk, og Thorhild Margaretha deildarstjóra hjá IMD í Noregi.  - mynd

Tæplega 3.400 umsóknir um alþjóðlega vernd hafa borist það sem af er ári hér á landi og meirihluti þeirra er frá fólki frá Úkraínu. Um 61% þeirra sem flúið hafa vegna stríðsátakanna í Úkraínu og komið til Íslands eru konur og atvinnuþátttaka þeirra er mikil. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, á óformlegum fundi ráðherra Norðurlandanna sem fara með málefni innflytjenda og flóttafólks. Fundurinn fór fram í Osló í gær og í dag.

Guðmundur Ingi undirstrikaði að um 600 einstaklingar frá Úkraínu hefðu nú þegar fengið atvinnuleyfi hér á landi – þar af nærri 400 konur. Atvinnuþátttaka bæði flóttafólks og innflytjenda á Íslandi væri mjög há sem skapaði tækifæri til virkar þátttöku þeirra í íslensku samfélagi.

Aðalumræðuefni ráðherrafundarins voru konur sem eru innflytjendur, þátttaka þeirra í atvinnu- og félagslífi, hindranir og lausnir. Á fundi gærdagsins var meðal annars kynnt norræn tölfræði sem unnin var fyrir Norrænu ráðherranefndina en samkvæmt henni sést greinilegur kynbundinn munur á atvinnuþátttöku konum í óhag sem mikilvægt er að breyta.

Einnig var rætt um mikilvægi þess að meta menntun og reynslu innflytjenda og fjallað um þann mannauð sem felst í komu þeirra til norrænu ríkjanna. Tækifæri til tungumálanáms, m.a. starfstengds tungumálanáms, auk starfsþjálfunar skapi mikilvæg og valdeflandi tækifæri fyrir konur sem eru innflytjendur. Virk þátttaka innflytjendakvenna á vinnumarkaði stuðli að auknu umburðarlyndi og styrki stoðir norræna velferðarkerfisins.

Í hringborðsumræðum lagði Guðmundur Ingi meðal annars áherslu á mikilvægi þess að skilja ekki konur eftir einar með ábyrgðina á að vinna gegn kynbundnum mun á vinnumarkaði. Þar þyrfti einnig að fræða karla svo að samfélagið sem heild taki ábyrgð á jafnri stöðu kynja hvort sem er á vinnumarkaði eða í samfélaginu almennt.

Í heimsókn síðar um daginn í norska ráðuneytið sem sér um innflytjendur og flóttafólk kynnti Guðmundur Ingi sér kerfi Norðmanna í samræmdri móttöku og með hvaða hætti brugðist hefur verið við auknum fjölda flóttafólks það sem af er ári, meðal annars vegna stríðsins í Úkraínu. Með Guðmundi í för í heimsókninni var Högni Kristjánsson sendiherra Íslands í Noregi.

Nú í morgun fór ráðherra síðan til Lillestrøm og heimsótti búsetuúrræði fyrir flóttafólk í sveitarfélaginu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson ásamt Högna Kristjánssyni, sendiherra Íslands í Noregi, Nancy Herz, ráðuneytisstjóra, og Thorhild Margaretha deildarstjóra hjá IMD í Noregi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson með norrænu ráðherrunum að loknum ráðherrafundinum í gær.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson ásamt Högna Kristjánssyni, sendiherra Íslands í Noregi, Nancy Herz, ráðuneytisstjóra, og Thorhild Margaretha deildarstjóra hjá IMD í Noregi.

Í heimsókninni til Lillestrøm nú í morgun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum