Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álagning opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2021

Ríkisskattstjóri hefur nú lokið álagningu opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2021. Álögð gjöld nema samtals 218,3 mö.kr. og hækka um 38 ma.kr. á milli ára, en breytingar einstakra skatta eru bæði til hækkunar og lækkunar. Stærstu einstöku breytinguna er að finna í tekjuskatti lögaðila en þar aukast tekjur ríkissjóðs um 31,1 ma.kr., eða 44,9%, milli ára. Stærsta hlutfallslega breytingin varð á sérstökum fjársýsluskatti sem ríflega tvöfaldaðist milli ára en þar sem hann er viðbótartekjuskattur á tekjuskattstofn umfram 1 ma.kr. er sterk fylgni milli hans og hefðbundins tekjuskatts. Tryggingagjald hækkar um 5,2 ma.kr. frá fyrra ári, eða 5,4%, þrátt fyrir tímabundna lækkun gjaldsins árið 2021. Rétt er að hafa í huga að hér er um að ræða svokallaða frumálagningu og getur álagingin tekið breytingum við endanlegt uppgjör.

Gjaldskyldum félögum fjölgar um 2.483, eða 5,2%, milli ára og eru nú 50.571 en félögum sem greiða tekjuskatt fjölgar um 2.250, eða 13,8% milli ára. Gjaldskyldum félögum fækkaði lítillega í síðustu álagningu en hafa nú aldrei verið fleiri. Félögum sem greiða tekjuskatt hafði fækkað ár frá ári síðastliðin sex ár en eru nú aftur orðin álíka mörg og þegar mest var árið 2016.

Síðustu ár hefur sú góða þróun orðið að skilum framtala hefur fjölgað hlutfallslega ár frá ári. Bætt skil framtala eru til þess fallin að fækka kærum og endurákvörðunum og skapast því meiri vissa um að álagning opinberra gjalda á lögaðila skili sér í ríkissjóð. Í ár var 86% framtala skilað áður en álagning fór fram, líkt og tvö síðustu ár, en það hlutfall fór fyrst yfir 80% árið 2018.

Endurgreiðsla ofgreiddra opinberra gjalda lögaðila nam um 20 mö.kr. í ár samanborið við 24 ma.kr. árið á undan og lækkar því um 17% milli ára.

 

Tekjuskattur lögaðila

Álagður tekjuskattur er 100,3 ma.kr. og hækkar um 31,1 ma.kr. eða 44,9% milli ára. Gjaldendum fjölgar um 2.250, eða 13,8% og sem fyrri ár eru það fyrirtæki í fjármála- og vátryggingastarfsemi sem greiða hæst hlutfall heildartekjuskatts. Hlutdeild þeirra hækkar nokkuð frá fyrra ári enda aukningin þar mikil, bæði í krónum og prósentum. Raunar eykst álagður tekjuskattur um tugi prósenta í nær öllum atvinnugreinum frá fyrra ári og er það til marks um það hversu mikil og almenn viðspyrnan var í kjölfar þess snarpa samdráttar sem kórónuveiran skóp. Útflutningsgreinar á borð við vinnslu sjávarafurða og stóriðju auka hlutdeild sína í tekjuskatti frá fyrra ári en afkomubatinn varð einnig mikill í innanlandshagkerfinu, t.a.m. heild- og smásöluverslun og fasteignaviðskiptum.

Tekjuár
Tekjuskattur, hlutfall af heild 2020 2021
Fjármála- og vátryggingastarfsemi 22,0% 23,8%
Framleiðsla, m.a. vinnsla sjávarafurða og stóriðja 11,7% 12,4%
Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum 12,0% 12,0%
Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð 9,8% 8,7%
Rafmagns-, gas- og hitaveitur 8,3% 7,9%
Fasteignaviðskipti 5,9% 6,5%
Annað 30,3% 28,6%
Samtals 100,0% 100,0%

 

Fjármagnstekjuskattur

Lögaðilar bera almennt ekki fjármagnstekjuskatt. Þó skulu þeir lögaðilar sem eru undanþegnir almennri tekjuskattskyldu greiða fjármagnstekjuskatt, eins og sveitarfélög og ýmis sjálfseignarfélög. Álagður fjármagnstekjuskattur á þessa lögaðila nemur 2 mö.kr. sem er 1,4 mö.kr. lægri fjárhæð en á árinu 2021 og nemur lækkunin því 40,1% milli ára. Setja þarf þá lækkun í samhengi við mikla aukningu í fyrra og er álagning fjármagnstekjuskatts nú mjög áþekk því sem var árin þar á undan.

Útvarpsgjald

Álagt útvarpsgjald á lögaðila nemur 880 m.kr. sem er 8,8% hækkun milli rekstraráranna 2020 og 2021. Á hvern gjaldanda hækkaði það úr 18.300 kr. í 18.800 kr., eða um 2,7%. Þá fjölgaði gjaldendum þess um 2.606 frá fyrra ári eða 5,9%.

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki („bankaskattur“)

Skatthlutfall sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki er 0,145% og gjaldstofninn heildarskuldir viðkomandi lögaðila yfir 50 ma.kr. í lok hvers árs. Álagður bankaskattur nemur nú um 5,3 mö.kr. og hækkar um 0,6 ma.kr. á milli ára, eða um 11,5%. Fimm lögaðilar greiða þennan skatt líkt og árið á undan.

Fjársýsluskattur

Álagning fjársýsluskatts, sem er innheimtur í staðgreiðslu nemur 3,4 mö.kr. og nær til 117 lögaðila en þeir voru 87 árið á undan. Skattstofninn samanstendur af öllum tegundum launa eða þóknana hjá fjármála- og tryggingafyrirtækjum, þar með talið bónusgreiðslum ef einhverjar eru. Skatthlutfallið hélst óbreytt frá fyrra ári, 5,5% og hækkar álagður fjársýsluskattur um 9,1% milli ára.

Sérstakur fjársýsluskattur

Sérstakur 6% fjársýsluskattur leggst á hagnað fjármálafyrirtækja, þ.m.t. tryggingafélaga, sem er umfram 1 ma.kr. Samkvæmt álagningartölum ríkisskattstjóra nemur hann um 4 mö.kr. á þessu ári og meira en tvöfaldast frá fyrra ári þegar álagningin nam 1,9 mö.kr. Fjöldi fyrirtækja sem greiða þennan skatt tvöfaldast milli ára en 14 fyrirtæki greiða nú skattinn.

Tryggingargjald

Álagning tryggingagjalds á launagreiðslur ársins 2021 nemur 102,3 mö.kr. og er það 5,2 mö.kr. meira en árið áður, eða 5,4%, en gjaldendum tryggingagjalds fjölgaði um 1.114, eða 4,8%. Auknar launagreiðslur og fjölgun starfandi urðu þess valdandi að þrátt fyrir tímabundna lækkun gjaldsins um 0,25 prósentustig á síðasta ári reyndust tekjur ríkissjóðs af gjaldinu meiri en árið áður.

Stuðningur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar

Stuðningur ríkissjóðs vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar nemur alls 11.603 m.kr. samkvæmt álagningunni í ár samanborið við 10.431 m.kr. í fyrra. Um er að ræða annað árið eftir að endurgreiðsluhlutfall og hámark styrkhæfs kostnaðar var hækkað. Sú aðgerð átti upphaflega að gilda í tvö ár en hefur nú þegar verið framlengd um eitt ár og stendur til að gera hækkunina varanlega frá og með árinu 2024.

Afslátturinn gengur upp í tekjuskatt ef fyrirtæki skila hagnaði en er annars útgreiðanlegur að fullu. Endurgreiðslan í ár er að upphæð 10.889 m.kr. og skuldajöfnunin að upphæð 715 m.kr. samanborið við 9.715 m.kr. endurgreiðslu í fyrra og 716 m.kr. skuldajöfnun. Alls fá 267 lögaðilar stuðninginn í ár en þeir voru 264 á síðasta ári eins og fram kemur í eftirfarandi töflu.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum