Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2022 Dómsmálaráðuneytið

Grevio-skýrsla um varnir og baráttu gegn heimilisofbeldi og ofbeldi sem beinist að konum

Ísland kemur vel út í nýrri skýrslu GREVIO, eftirlitsnefndar Evrópuráðsins með Istanbúl-samningnum sem felur í sér aðgerðir og baráttu gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum.  Ísland fullgilti samninginn árið 2018 og er þetta fyrsta skýrsla nefndarinnar um Ísland. Í skýrslunni koma fram helstu niðurstöður eftirlitsnefndarinnar auk tilmæla til Íslands um hvað megi betur fara en skýrslan hefur verið í vinnslu með þátttöku Íslands frá byrjun árs 2021.

Í tilkynningu frá GREVIO vegna skýrslunnar kemur fram að nefndin fagni þeim víðtæku ráðstöfunum sem íslensk yfirvöld hafi gripið til í því augnamiði að standa vörð um réttindi kvenna og jafnrétti á Íslandi. Í fréttatilkynningunni kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi undanfarin ár staðið fyrir aðgerðum sem aðlagað hafa íslenska löggjöf að þeim kröfum sem settar eru fram í Istanbúlsamningnum svo sem um um kröfuna um samþykki þegar kemur að nauðgunar- og kynferðisbrotum, ákvæði um ofbeldisbrot í nánum samböndum sem og ýmis ákvæði sem tengjast stafrænu kynferðisofbeldi. Einnig er til þess tekið í tilkynningunni frá GREVIO að nefndin hafi tekið eftir mörgum lofsverðum verkefnum á borð við almenna vakningarherferð gegn kynferðisofbeldi og ofbeldi gegn konum og sömuleiðis árlega skýrslu um áhrif fjárlagagerðar á hverju málefnasviði eftir kyni.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra
„Þetta er jákvæð skýrsla í nær alla staði fyrir Ísland og undirstrikar fyrst og fremst þann einhug sem hefur ríkt innan míns ráðuneytis, og reyndar allrar ríkisstjórnarinnar, um þann forgang sem þessi mál eiga að njóta. Nú þegar þessi fyrsta skýrsla GREVIO um Ísland hefur verið birt er verkefnið í höndum starfshóps sem forsætisráðherra og dómsmálaráðherra hafa nú þegar skipað til að móta landsáætlun um innleiðingu á Istanbúl-samningnum hér á landi.“   

Ísland hlýtur hrós fyrir margvíslega þætti og fram kemur að skýrslan varpi ljósi á skýran vilja og skuldbindingar íslenskra stjórnvalda til þess að koma á kynjajafnrétti, sérstaklega með baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og því að bæta lagalega stöðu þolenda og minnka launabil kynjanna. Enn fremur hlýtur Ísland hrós fyrir að vera leiðandi í innleiðingu jafnréttiskennslu á öllum skólastigum, vitundarvakningu um ofbeldi gegn konum og fleiri slíkum herferðum auk margvíslegra aðgerða stjórnvalda á hinum ýmsu sviðum þar sem lögð er sérstök áhersla á bætta stöðu kvenna og stúlkna. Fram kemur í skýrslunni að starfsfólk lögreglu sé vel þjálfað til að takast á við kynferðisbrot og heimilisofbeldi og margvíslegar lagabreytingar sýni að íslensk stjórnvöld leggi áherslu á aðgerðir sem miða að baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Þá hlýtur Ísland lof fyrir að vera leiðandi í stofnun úrræða eins og Barnahúss, Bjarkarhlíðar og Bjarmahlíðar sem talin eru til fyrirmyndar.

Helstu tilmæli nefndarinnar

Nefndin setur fram tilmæli um það sem betur megi fara, sem snerta á margvíslegum málefnum og eru frá því að vera smávægilegar ábendingar um hvað stjórnvöld geti skoðað að gera betur yfir í sterklega orðaðar hvatningar til breytinga sem nauðsynlegar séu í því skyni að Ísland uppfylli að fullu skilyrði Istanbúl-samningsins.

Meðal þeirra helstu eru tilmæli um að bæta megi samhæfða þjónustu og viðbrögð við ofbeldi gegn konum, tryggja víðtæka og samræmda skráningu tölfræði og að frjálsum félagasamtökum verði tryggt nægt fjármagn. Að mati nefndarinnar þyrfti að koma á gjaldfrjálsri hjálparlínu sem þolendur ofbeldis geti leitað til og þá þurfi að tryggja skjóta sálfræðiþjónustu fyrir þolendur kynferðisofbeldis með því að stytta biðlista og jafnframt verði tryggt að konur fái aðstoð við að komast úr ofbeldissambandi m.t.t. efnahagslegs sjálfstæðis þeirra s.s. með aðstoð við starfsþjálfun og atvinnuleit. Nefndin bendir á að takast þurfi á við málshraða í réttarvörslukerfinu og bent er á að skoða þurfi lágt hlutfall sakfellinga í nauðgunarmálum sem og öðrum ofbeldismálum gegn konum auk þess sem nálgunarbanni ætti oftar að vera beitt. Bent er á að í ákvörðunum í umgengnis- og forsjármálum barna þyki nefndinni ekki  nægjanlega horft til ofbeldis sem átt hafi sér stað hvort heldur sem er gagnvart barni eða öðru foreldri þess. Nefndin bendir einnig á nauðsyn þess að í búsetuúrræðum fyrir konur í leit að alþjóðlegri vernd séu konur að störfum. Í skýrslunni er auk þess bent á nauðsyn þess að setja í löggjöf ákvæði sem geri þvingaðar ófrjósemisaðgerðir refsiverðar og nefndin óskar eftir að skoðaðir verði þættir sem lítt hafa verið rannsakaðir hér á landi s.s. umsáturseinelti, heiðursmorð, umskurður kvenna, þvinguð hjónabönd og þvingaðar ófrjósemisaðgerðir.

Skýrsluvinna og Íslandsheimsókn

Í september árið 2021 skiluðu íslensk stjórnvöld skýrslu til Evrópuráðsins sem byggð var á ítarlegum spurningalista frá nefndinni. Um umfangsmikla umfjöllun er að ræða um aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að uppfylla skilyrði Istanbúl-samningsins, bæði hvað varðar lagalegar skyldur og aðrar aðgerðir er varða aðgerðaáætlanir og stefnur stjórnvalda í málaflokknum, forvarnir, vernd og aðstoð við þolendur og aðgerðir er varða réttarvörslukerfið.

Heimsókn fulltrúa eftirlitsnefndarinnar (GREVIO) til Íslands fór síðan fram sl. vor, þar sem fulltrúar nefndarinnar funduðu með ýmsum aðilum sem málefnið snerta s.s. fulltrúum viðeigandi ráðuneyta, lögreglu, ákæruvalds, dómara, Fangelsismálastofnunar, Útlendingastofnunar, New in Iceland, Alþjóðaseturs, félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Þjóðskrár, Barna- og fjölskyldustofu, Jafnréttisstofu, Umboðsmanni barna og Barnavernd Reykjavíkur ásamt því að hitta frjáls félagasamtök.

Vinnan framundan

Niðurstöður nefndarinnar snúa að núverandi stöðu á innleiðingu ákvæða samningsins. Íslensk stjórnvöld vinna nú þegar að aðgerðum sem snúa að mörgum þeirra tilmæla sem nefndin gerir til Íslands, en aðgerðirnar munu hafa áhrif á innleiðingu samningsins hér á landi.  Þá hefur dómsmálaráðherra nú þegar skipað starfshóp þvert á ráðuneyti sem hefur það hlutverk að móta tímasetta landsáætlun um innleiðingu Istanbúl-samningsins og meta framfylgni ákvæða  hér á landi. Hópurinn mun taka athugasemdir GREVIO til skoðunar og móta aðgerðir og vinnu í samræmi við ábendingar sem fram koma í skýrslu úttektarnefndarinnar.

 

Heimasíða GREVIO - frétt um skýrsluna

Skýrsla Grevio um Ísland

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum