Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Dagur íslenskrar tungu: Íslensk-pólsk veforðabók í augsýn

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 15 milljóna króna styrk til að vinna að gerð íslensk-pólskrar veforðabókar. Sárlega hefur vantað slíka orðabók fyrir þann stóra hóp Pólverja sem sest hefur að hér á landi. Veforðabókin verður aðgengileg öllum á netinu.

Markmiðið með verkefninu er að styðja pólska innflytjendur til íslenskunáms og auðvelda þeim þannig inngildingu í íslensku samfélagt með því að bjóða upp á gjaldfrjálst, rafrænt og aðgengilegt hjálpartæki sem einnig mun nýtast nemendum í skólum.

Undanfarin fimmtán ár hefur orðfræðisvið Árnastofnunar þróað og gefið út ókeypis veforðabækur sem náð hafa mikilli útbreiðslu. ISLEX-veforðabókin tengir til að mynda íslensku við dönsku, sænsku, norskt bókmál, nýnorsku, færeysku og finnsku. Á grunni þeirrar vinnu hefur orðið til íslensk-frönsk veforðabók og Íslensk nútímamálsorðabók sem eru mikið notaðar af nemendum og almenningi. Brátt bætist nú íslensk-pólsk veforðabók í hópinn.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„Íslenskan er lykill innflytjenda að samfélaginu. Það er því einkar gleðilegt að íslensk-pólsk veforðabók muni líta dagsins ljós. Orðabókin verður á netinu og ókeypis sem er lykilatriði. Ég er sannfærður um að hún muni koma að verulegu gagni og verði mikið notuð af þeim ríflega 20.000 Pólverjum sem búa á Íslandi.“

Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum:

„Við erum afar þakklát fyrir þennan myndarlega stuðning ráðuneytisins sem skiptir sköpum. Sárlega vantar íslensk-pólska orðabók fyrir þann stóra hóp Pólverja sem sest hefur að á Íslandi undanfarna áratugi. Veforðabókin er unnin í samvinnu við Stanislaw Bartoszek og pólskt orðabókarefni frá honum notað en nú getum við létt undir með honum og ráðið fleiri til verksins. Við notum máltæknilegar aðferðir við pólska markmálið sem flýtir mjög fyrir og í þeirri vinnu er enn fremur fólgin spennandi nýsköpun.“

Krótkie podsumowanie:
Trwają prace nad stworzeniem internetowego słownika islandzko -polskiego, który będzie bezpłatny i dostępny dla każdego. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Minister Spraw Społecznych i Rynku Pracy, przyznał Instytutowi Arniego Magnussona dotację na ten cel. Słownik przygotowywany jest we współpracy ze Stanisławem Bartoszkiem i zostanie szczegółowo zaprezentowany po udostępnieniu go dla użytkowników.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum