Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Matvælaráðuneytið

Ísland og Síle leiða alþjóðlegt átak til verndar freðhvolfinu

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra undirritar yfirlýsinguna fyrir Íslands hönd. - mynd

Á aðildarríkjaþingi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna COP27 sem haldið er í Sharm El Sheikh í Egyptalandi, undirrituðu ráðherrar 13 ríkja yfirlýsingu til að ýta úr vör alþjóðlegu átaki sem ætlað er að vekja athygli á mikilvægi þess að vernda freðhvolfið (e. Cryosphere). Sex ríki til viðbótar hafa einnig staðfest þátttöku.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra undirritaði yfirlýsinguna fyrir Íslands hönd. Átakið er leitt af Íslandi og Síle, sem fulltrúar norður – og suðurhvela jarðar. Enska heiti verkefnisins er „Ambition on Melting Ice“ (AMI) og hefur að markmiði að vernda frosin landsvæði jarðar, eða freðhvolfið eins og það er kallað, með skilvirkum loftslagsaðgerðum.

Markmið  AMI er líka að vekja athygli á þeirri ógn sem steðjar að jöklum og heimskautasvæðum vegna loftslagsbreytinga og áhrifanna sem þær hafa á búsvæði og náttúru á landi og í hafi, bæði til skemmri og lengri tíma. Lögð verður áhersla á að koma þeim skilaboðum áfram í almennri umræðu og á vettvangi Loftslagssamningsins. Einnig verður  lögð áhersla á mikilvægi orkuskipta og þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í þessu samhengi.  

Svandís sagði þetta framtak mjög mikilvægt:  „Þetta er ekki bara málefni ríkja á norðurhvelinu eða ríkja þriðja pólsins. Þetta skiptir alla heimsbyggðina máli. Samdráttur í losun þarf að vera forgangsmál hjá okkur öllum.” 

Í yfirlýsingu AMI eru ríki heims hvött til þess að draga úr losun um 50% fyrir árið 2030. „Hinn kosturinn er hrein ógn við tilveru mannkyns, eitthvað sem ekkert okkar vill að verði arfleifð okkar kynslóðar,“ segir í yfirlýsingunni.

Þau lönd sem  auk Íslands og Síle,  hafa nú þegar staðfest þátttöku eru: 

Finnland, Georgía, Kirgistan, Líbería, Mexíkó, Mónakó, Nepal, Noregur, Nýja Sjáland, Perú, Samóa, Senegal, Sviss, Svíþjóð, Tansanía, Tékkland, Vanúta. Fleiri hafa lýst yfir áhuga og kann ríkjum á listanum því að fjölga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum