Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ný vegferð í þjónustu við fatlað fólk á Íslandi: Formleg vinna hefst við gerð landsáætlunar

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra og fundarstjóri á ráðstefnunni, og Þór G. Þórarinsson, sérfræðingur í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og verkefnastjóri um gerð landsáætlunar, hlýða á ávarp ráðherra ásamt öðrum fundargestum.  - mynd

„Við skulum hefja nýja vegferð í þjónustu við fatlað fólk á Íslandi,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra á fjölmennri ráðstefnu sem fram fór í gær og fjallaði um gerð landsáætlunar um innleiðingu á ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ráðherra áréttaði að hann tryði því að slík vegferð myndi færa okkur að því markmiði að fatlað fólk gæti notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og til jafns við aðra.

Ríkisstjórnin samþykkti í sumar tillögu forsætisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra um að unnið yrði að gerð áðurnefndrar landsáætlunar. Landsáætlunin er liður í innleiðingu og lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Á ráðstefnunni sem fram fór á Reykjavik Hilton Nordica í gær var vinnunni við gerð áætlunarinnar formlega ýtt úr vör.

Verkefnastjórnina skipa fulltrúar ráðuneyta, stofnana, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka og með henni munu starfa alls 11 vinnuhópar sem hver og einn samanstendur af 5-7 manns. Því er ljóst að hópurinn sem kemur að vinnunni við gerð landsáætlunarinnar er afar fjölmennur.

„Við getum saman tekið ákvörðun um að hefja okkur upp í 20 þúsund fetin, ná góðri yfirsýn, steypa okkur svo niður og vinna saman að því að ná markmiðum samningsins,“ sagði ráðherra í ávarpi sínu á ráðstefnunni.

„Verkefnin eru mörg og það verður ekki alltaf auðvelt að leysa þau. En það er nú samt sem áður verkefnið okkar og við þurfum að einhenda okkur í það verkefni saman,“ sagði hann enn fremur og undirstrikaði að með gerð landsáætlunar væri lagt upp með að tryggja fyrirsjáanleika og öryggi í fjármögnun þeirra verkefna sem sett yrðu á dagskrá.

Meginverkfæri stjórnvalda við stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks

Landsáætlunin verður meginverkfæri stjórnvalda við heildstæða stefnumótun í málaflokki fatlaðs fólks og mun ná til allra þeirra málasviða sem falla undir samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Markmiðin sem skilgreind verða í áætluninni munu byggja á greinum samningsins og þeim munu síðan fylgja aðgerðir. Framvindan verður svo metin á árlegu samráðsþingi. Staða aðgerða gagnvart markmiðum hverrar og einnar greinar samningsins verður þar rýnd og öll þau sem hagsmuna eiga að gæta geta haft rödd og komið ábendingum og tillögum á framfæri.

Stefnumótuninni og gerð landsáætlunar um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er skipt upp í tvo áfanga og tekur fyrsti áfangi til tímabilsins 2022-2025. Á þeim tíma verður landsáætlun lögð fram á Alþingi í formi þingsályktunartillögu og í kjölfarið frumvarp til lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Síðari áfangi tekur til áranna 2026-2030 og felst fyrst og fremst í eftirfylgd með innleiðingu.

  • Ný vegferð í þjónustu við fatlað fólk á Íslandi: Formleg vinna hefst við gerð landsáætlunar - mynd úr myndasafni númer 1
  • Ný vegferð í þjónustu við fatlað fólk á Íslandi: Formleg vinna hefst við gerð landsáætlunar - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum