Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sameining Vinnumálastofnunar og Fjölmenningarseturs

Fyrirhugað er að sameina Vinnumálastofnun og Fjölmenningarsetur þannig að öll þjónusta sem snýr að innflytjendum, flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd verði á hendi einnar stofnunar hér á landi. Vinnumálastofnun og Fjölmenningarsetur eru þær stofnanir félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem veita innflytjendum, flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd þjónustu. Gert er ráð fyrir að hin sameinaða stofnun taki til starfa á næsta ári og fái nýtt heiti.

Markmið sameiningarinnar er að veita á einum stað heildræna og samþætta þjónustu fyrir innflytjendur, flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Með sameiningunni er meðal annars horft til þess árangurs sem móttökumiðstöð fyrir flóttafólk hefur skilað en þar hefur öll þjónusta fyrir þau sem eru nýkomin til landsins verið sameinuð á einn stað. Miðstöðin var opnuð í apríl sl. og er staðsett þar sem Domus Medica var áður til húsa.

Fyrirhugaðri sameiningu Vinnumálastofnunar og Fjölmenningarseturs er ætlað að ná fram samlegðaráhrifum milli stofnana til að innflytjendur, flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd geti leitað á einn stað vegna þeirrar umfangsmiklu þjónustu sem ráðuneytinu og stofnunum þess er ætlað að veita. Jafnframt einfaldar þetta samstarf ríkis og sveitarfélaga í málaflokknum og gerir alla þjónustu skilvirkari.

„Sameinaðri og öflugri stofnun fylgja fjölmörg tækifæri. Markmiðið er að tryggja að þjónusta við fólk sem sest hefur að á Íslandi eða sótt hér um alþjóðlega vernd gangi sem best fyrir sig. Móttökumiðstöðin í Domus Medica er til dæmis framúrskarandi dæmi um það hvernig hægt er að bæta þjónustu og breyta kerfinu til hins betra,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Hjá Vinnumálastofnun eru um það bil 190 fastráðnir starfsmenn. Stofnunin starfrækir átta þjónustuskrifstofur um land allt auk þess sem Fæðingarorlofssjóður er staðsettur á Hvammstanga og Greiðslustofa atvinnuleysistrygginga á Skagaströnd. Hjá Fjölmenningarsetri eru tæplega 10 stöðugildi fastráðinna starfsmanna. Aðalskrifstofa stofnunarinnar er á Ísafirði, en þar eru 2 stöðugildi. Sömuleiðis eru tveir starfsmenn á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Ísafirði. Gert er ráð fyrir að stöðugildum á Ísafirði verði fjölgað í sameinaðri stofnun, með tilkomu nýrra verkefna. Jafnframt er gert ráð fyrir að fastráðnu starfsfólki beggja stofnana verði boðin vinna hjá sameinaðri stofnun.

Fyrirhugað er að félags- og vinnumarkaðsráðherra muni á komandi vorþingi leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um sameinaða stofnun. Ráðherra hefur kynnt þessi áform fyrir báðum stofnunum, ríkisstjórn, bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og þingmönnum Norðvesturkjördæmis.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum