Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Íslenskir læknanemar í Slóvakíu

Frá heimsókn forseta Íslands og heilbrigðisráðherra til Jessenius-læknadeildar Komeniusarháskólans í Slóvakíu - mynd

Heilbrigðisráðherra fylgdi forseta Íslands í opinberri heimsókn til Slóvakíu í lok októberþar sem þeir kynntu sér meðal annars starfsemi Jessenius-læknadeildar Komeniusarháskólans í borginni Martin. Um 170 íslenskir læknanemar stunda þar nú nám. Fyrstu nemarnir skráðu sig til náms við deildina árið 2012 og frá þeim tíma hafa 79 íslenskir læknar útskrifast frá háskólanum.

Heilbrigðisráðherra hitti íslensku læknanemana og ræddi við þá um menntun íslenskra lækna og menntunartækifæri þeirra heima og erlendis. Ráðherra kynnti sér líka kennsluaðstöðu læknadeildarinnar. Hann skoðaði meðal annars hermi- og færnisetur sem notað er til klíniskrar þjálfunar við skólann og þykir í fremstu röð.

Hann ræddi sérstaklega um þær áskoranir sem þjóðir heims standa frammi fyrir varðandi mönnun heilbrigðiskerfisins þar sem víða væri skortur á menntuðu heilbrigðisstarfsfólki. Áskorunin væri sérstaklega stór fyrir fámennar þjóðir eins og Ísland og því væri mikilvægt að styðja við bakið á þeim sem ákveða að sækja sér menntun erlendis.

Hann  nefndi sérstaklegabreytingar sem gerðar voru á veitingu lækningaleyfis á liðnu ári sem mikilvægan lið í því.  Eftir breytinguna er almennt og ótakmarkað lækningaleyfi nú veitt að loknu 6 ára læknanámi við Háskóla Íslands. Starfsnám sem áður fór fram á kandidatsári og var hluti af grunnnámi lækna er nú hluti af sérnámi þeirra. Þetta var gert til samræmis við sambærilegar breytingar á námi lækna víða erlendis, m.a. í Slóvakíu og mörgum öðrum ríkum EES. Gerir breytingin læknanemum sem útskrifast úr grunnnámi frá erlendum háskólum auðveldara fyrir að hefja sérnám á Íslandi en tækifæri lækna til að ljúka sérnámi hér á landi hafa stóraukist á liðnum árum.

Ráðherra sagði mikilvægt að fjölga áfram tækifærum lækna til að mennta sig hér á landi og unnið yrði að því. Þeir sem menntuðu sig erlendis væru mikilvægir fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu sem þyrfti á menntun þeirra og reynslu að halda og tæki þeim fagnandi.

 

 

  • Íslenskir læknanemar í Slóvakíu - mynd úr myndasafni númer 1
  • Íslenskir læknanemar í Slóvakíu - mynd úr myndasafni númer 2
  • Íslenskir læknanemar í Slóvakíu - mynd úr myndasafni númer 3
  • Heilbrigðisráðherra spjallar við íslenska læknanema í Slóvakíu - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira