Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2022 Innviðaráðuneytið

Minningarathöfn við þyrlupallinn í Fossvogi og fleiri haldnar víða um land

Árlegur alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa verður haldinn sunnudaginn 20. nóvember. Í ár verður sérstök áhersla lögð á öryggi óvarinna vegfarenda og einnig munu nokkrir einstaklingar segja frá reynslu sinni að hafa valdið banaslysi í umferðinni. Táknrænar minningarstundir verða haldnar hringinn í kringum landið af þessu tilefni. Dagskrá viðburða er á vefnum minningardagur.is.

Minningarathöfn verður haldin við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi kl. 14, eftir þriggja ára hlé vegna faraldursins,. Öllum er velkomið að taka þátt í athöfninni. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, flytja ávörp og að venju verður einnar mínútu þögn sem landsmenn eru hvattir til að taka þátt í. 

Jónína Snorradóttir frá Vestmannaeyjum flytur ávarp við athöfnina og segir þar frá sárri reynslu sinni að hafa orðið völd í banaslysi í Eyjum fyrir þrjátíu árum. Fleiri standa í þeim sporum og munu segja frá reynslu sinni í tengslum við minningardaginn.

Tíu viðburðir um land allt

Sambærilegar minningarathafnir verða haldnar á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á minnst tíu stöðum víðs vegar um land. Þar verður dagskrá á vegum eininga Landsbjargar og kveikt á kertum til minningar um fólk sem látist hefur í umferðinni eða slasast alvarlega. Þau sem ekki komast eru hvött til að kveikja á kertum heima við.

Einkennislag dagsins er lag KK, When I Think of Angels, í flutningi hans og Ellenar sem samið var til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992. Lagið verður flutt samtímis á öllum útvarpsstöðum á minningardaginn kl. 14:00.

Alþjóðlegur minningardagur

Tilgangurinn með deginum er að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni eða slasast alvarlega, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni. Þá er rík hefð fyrir því á minningardeginum að færa starfsstéttum, sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður, þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf.

Þá gleymist oft að hlúa að þeim ökumönnum sem verða valdir að banaslysum eða öðrum alvarlegum slysum. Það að verða þess valdur vegna misgánings, skorts á athygli eða einhvers annars að einhver slasast eða lætur lífið kallar yfir viðkomandi ævarandi sorg, sjálfsásökun og vanlíðan sem markar framtíð þeirra. Þessu fólki má ekki gleyma. 

Minningardagurinn er alþjóðlegur undir merkjum Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. 

Frá því að fyrsta banaslysið var skráð hér á landi 25. ágúst 1915 hefur 1.601 látist í umferðinni á Íslandi (til og með 29. september 2022). Enn fleiri slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum. 

Það sem af er þessu ári (2022) hafa 7 einstaklingar látið lífið í umferðinni hér á landi. Allt árið 2021 létust níu einstaklingar í umferðinni og alvarlegum slysum fjölgaði talsvert miðað við fyrra ár. Árið 2020 létust sjö einstaklingar en árið 2019 létust sex.

Undanfarin tíu ár (2012-2021) létust að meðaltali 11 manns í umferðinni á hverju ári. Tíu ár þar á undan (2002-2011) létust að meðaltali 17 manns á ári í umferðinni hér á landi. 

Segja má að allt samfélagið deili með sér alvarlegum afleiðingum umferðarslysa. Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í alvarlegu slysi í umferðinni. Það er því til mikils að vinna að koma í veg fyrir slysin og megi þessi dagur efla vitund okkar fyrir því og ábyrgð. 

Að baki minningardeginum standa Samgöngustofa, innviðaráðuneytið, Sjálfsbjörg, Landsbjörg, lögreglan og Vegagerðin.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira