Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Reykjavíkurborg og ríki semja um móttöku 1500 flóttamanna

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags og vinnumarkaðsráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Nichole L. Mosty, forstöðukona Fjölmenningarsetur í Ráðhúsi Reykjavíkur fyrr í dag.  - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Nichole Leigh Mosty, forstöðukona Fjölmenningarseturs, undirrituðu í dag samning um samræmda móttöku flóttafólks í Reykjavík. Samningurinn var undirritaður í Ráðhúsi Reykjavíkur og kveður á um að Reykjavíkurborg taki í samstarfi við stjórnvöld á móti allt að 1.500 flóttamönnum á tímabilinu 1. október 2022 til 31. desember 2023.

Markmiðið með samræmdri móttöku flóttafólks er að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur sem og óháð því í hvaða sveitarfélagi það býr. Lögð er áhersla á nauðsynlega aðstoð við fólk til að vinna úr áföllum og að það fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, svo sem með atvinnu, námi, þ.m.t. íslenskunámi, og samfélagsfræðslu. 

Samræmda móttakan nær til fólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Fjölmenningarsetur er tengiliður milli ríkis og borgar og tengir flóttafólk við Reykjavíkurborg, auk þess að veita starfsmönnum borgarinnar faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf.

Hjá Reykjavíkurborg er mikil þekking á móttöku flóttafólks enda hefur borgin lengi tekið þátt í móttöku flóttafólks og verið brautryðjandi á því sviði. Eldri samningur Reykjavíkurborgar við stjórnvöld um samræmda móttöku flóttafólks hljóðaði upp á móttöku 500 flóttamanna en því til viðbótar hefur Reykjavíkurborg veitt fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd þjónustu á meðan umsókn þeirra hefur verið til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„Stórt skref hefur nú verið stigið í móttöku flóttafólks hér á landi. Samstarfið við Reykjavíkurborg hefur verið einstaklega gott og vert er að óska borginni til hamingju – og sömuleiðis óska borgarbúum til hamingju með þá góðu viðbót sem mannlífið í borginni nú fær.“

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri:

„Innrás Rússa í Úkraínu er hörmuleg og hefur sent milljónir fólks á vergang og flótta. Borgarstjórn hefur verið samstíga í því að fordæma innrásina og sameinast um að borgin taki virka þátt i móttöku flóttafólks. Það er mjög jákvætt að samningar um móttökuna séu nú í höfn og að við stöndum saman um að bjóða flóttafólk og flóttabörn velkomin og vinnum að því að þau verði hratt og vel hluti af samfélaginu okkar hér í Reykjavík. Þessir samningar eru gott skref að því marki.“ 

  • Reykjavíkurborg og ríki semja um móttöku 1500 flóttamanna - mynd úr myndasafni númer 1
  • Reykjavíkurborg og ríki semja um móttöku 1500 flóttamanna - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum