Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Lilja leiðir viðskiptasendinefnd til Suður Kóreu

Eftir fund með fulltrúm CJ ENM - mynd

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra fer fyrir íslenskri viðskiptasendinefnd til Suður Kóreu þar sem sérstök áhersla er lögð á menningu og skapandi greinar. Tilefni ferðarinnar er að í ár fagna Ísland og Suður Kórea 60 ára stjórnmálasambandi milli landanna en löndin tóku upp formlegt stjórnmálasamband þann 10. október 1962. Var þessum tímamótum meðal annars fagnað fyrr í haust þegar að sérstök sendinefnd á vegum Suður kóreskra stjórnvalda heimsótti Ísland.

Í dag heimsótti ráðherra ýmis fyrirtæki í kvikmynda- og afþreyingariðnaði til að kynna endurgreiðslukerfi í kvikmynda- og tónlistariðnaði á Íslandi, þar á meðal framleiðslu- og fjölmiðlafyrirtækið CJ ENM sem er leiðandi fyrirtæki í kóreskum afþreyingariðnaði. Fyrirtækið framleiddi til dæmis myndina Parasite sem fór sigurför um heiminn og hlaut fjögur Óskarsverðlaun árið 2020.

Þá fundaði ráðherra einnig með Nam Kyung Lee, formanni Samtaka kóreskra umboðsskrifstofa, sem eru regnhlífasamtök 160 umboðsskrifstofa í K-Pop tónlist en vinsældir K-Pops hafa aukist verulega í heiminum en árlegt umfang þess er áætlað 10 milljarðar bandaríkjadala, eða um 1420 milljarða króna, fyrir Suður Kórest hagkerfi. Aukinheldur heimsótti ráðherra Kynningarmiðstöð skapandi greina (e. Korea Creative Conent Agency – KOCCA) sem hefur það hlutverk að styðja við útflutning og kynningu á kóreskri menningu ásamt því að eiga vinnufund með fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem selja ferðir til Íslands.

Segja má að Lilja sé heimavelli í Suður Kóreu en hún dvaldi í landinu á árunum 1993-1994 þegar hún lagði stund á nám í stjórnmála- og hagsögu Suður-Kóreu við Ewha kvennaháskólann í Seúl.

,,Tímamót eins og 60 ára stjórnmálasamband eru merkileg og vel til þess fallin til að líta yfir farin veg og horfa til framtíðar. Á þessum sextíu árum hafa ríkin þróað náið samstarf á hinum ýmsu sviðum, svo sem í mennta- og menningarmálum, vísindum og málefnum norðurslóða. Bæði lönd mikla áherslu á að rækta menningu og ég tel að við getum lært ýmislegt af Suður-Kóreubúum þegar kemur að því að miðla henni til umheimsins. Þar hafa þeir náð frábærum árangri. Það eru klárlega tækifæri til þess að auka viðskipti milli ríkjanna,‘‘ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Ferð viðskiptasendinefndarinnar er skipulögð af utanríkisráðuneytinu, Íslandsstofu og menningar- og viðskiptaráðuneytinu og hefur það að markmiði að auka viðskipti milli Íslands og Suður-Kóreu. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira