Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2022 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðuneytið stöðvaði ættleiðingar frá Sri Lanka árið 1986

Í ljósi umfjöllunar síðustu daga um ættleiðingar frá Sri Lanka til Íslands á 9. áratugnum vill ráðuneytið koma á framfæri upplýsingum til þess að varpa ljósi á forsögu málsins. Þættirnir „Leitin að upprunanum“ sýna það glögglega hversu dýrmætt það er hverju mannsbarni að þekkja til móður og föður, að vita uppruna sinn. Í heimi skipulagðra afbrota eru barnarán og falsaðar ættleiðingar of algeng fyrirbæri og árið 1986 kom það í hlut dómsmálaráðuneytisins að stíga á bremsurnar hérlendis. Ráðuneytið stöðvaði ættleiðingar frá Sri Lanka vegna atviks sem upp kom og þess vafa sem ráðuneytið taldi leika á ferli ættleiðinga þaðan á þeim tíma.

Fyrir það að stöðva ættleiðingar frá Sri Lanka fékk ráðuneytið raunar ákúrur frá Íslenskri ættleiðingu á sínum tíma sem lagðist gegn ákvörðun ráðuneytisins eins og glöggt sést í fundargerðum á árunum 1984 til 1987. Sjá nánar hér: https://www.isadopt.is/is/felagid/fundargerdir

Umræddar ættleiðingar frá Sri Lanka til Íslands áttu sér stað áður en Ísland gerðist aðili að Haag samningnum frá 29. maí 1993 um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa

Ráðuneytið sendi erindi til Sri Lanka - svör hafa ekki fengist

Í tilefni af ábendingu Íslenskrar ættleiðingar til ráðuneytisins í lok september 2017 um fjölmiðlaumfjöllun um ættleiðingar frá Sri Lanka á 9. áratugnum og fyrirhugaða rannsókn á Sri Lanka sendi dómsmálaráðuneytið, nánar tiltekið í október 2017, erindi til stjórnvalda á Sri Lanka. Í erindi ráðuneytisins kom m.a. fram hversu mörg börn hefðu verið ættleidd frá Sri Lanka til Íslands og að óskað væri eftir nánari upplýsingum um þá rannsókn sem átti að fara fram í þar í landi. Þá var óskað eftir því að íslensk stjórnvöld yrðu upplýst um framvindu málsins og þær niðurstöður sem kæmu út úr þeirri rannsókn sem kynnu að varða uppruna þeirra sem ættleiddir hefðu verið. Var Íslensk ættleiðing upplýst um þetta og er það m.a. staðfest í viðtali við fyrrum framkvæmdastjóra félagsins þann 7. nóvember 2017, sjá nánar hér: Vísir.is - Líkur á að börn hafi verið ættleidd ólöglega hingað til lands | Íslensk ættleiðing (isadopt.is)  Þrátt fyrir tilraunir ráðuneytisins til þess að afla frekari upplýsinga hafa ekki borist svör frá yfirvöldum á Sri Lanka.

Fullur vilji til aðstoðar  - engar ósvaraðar fyrirspurnir í ráðuneytinu

Dómsmálaráðuneytið hefur fullan vilja til að aðstoða þá einstaklinga sem telja eða hafa grun um að ekki hafi verið staðið rétt að ættleiðingu í þeirra tilviki eftir því sem unnt er, en bendir þó á að úrræði ráðuneytisins kunna að vera takmörkuð. Umfjöllun í þættinum „Leitin að upprunanum“ verður ráðuneytinu hins vegar hvatning til þess að skoða hvað unnt sé að gera frekar, til dæmis að kanna frekari leiðir til þess að afla upplýsinga eða falast eftir aðstoð yfirvalda þar í landi við uppkomna ættleidda hér á landi sem vilja aðstoð við að komast að uppruna sínum. Einnig skiptir máli að mati ráðuneytisins að einstök mál séu aðeins skoðuð í samráði við þá einstaklinga sem um ræðir og ættleiddir voru til landsins. Dómsmálaráðuneytið hefur afhent skjöl og pappíra varðandi ættleiðingar þegar eftir þeim hefur verið leitað af aðilum sem rétt eiga á því. Í ráðuneytinu liggja engar ósvaraðar fyrirspurnir frá einstaklingum varðandi ættleiðingar frá Sri Lanka.

Stuðningur og ráðgjöf við uppkomna ættleidda var sett í samning ÍÆ árið 2018

Eitt af þeim verkefnum sem Íslenskri ættleiðingu hafa verið falin er að veita félagsmönnum sínum þjónustu eftir að ættleiðing hefur verið veitt. Í kjölfar erindis Íslenskrar ættleiðingar árið 2017 voru gerðar breytingar á þjónustusamningi við félagið þar sem sett var inn nýtt ákvæði um að félaginu væri heimilt að veita uppkomnum ættleiddum ráðgjöf í tengslum við mögulega upprunaleit að því marki sem félagið hefði tök á. Tók sá þjónustusamningur gildi 1. janúar 2018. Í erindi Íslenskrar ættleiðingar til ráðuneytisins í október 2018 kemur það jafnframt fram að félagið hafi í kjölfar frétta frá Sri Lanka boðið ættleiddum upp á ráðgjöf vegna upprunaleitar og einnig sálfræðilegan stuðning til þess að takast á við upplýsingar um að mögulega hafi ekki verið rétt staðið að ættleiðingu viðkomandi. Ráðuneytið var því á þeim tíma í góðri trú að þjónusta við uppkomna ættleidda væri í góðum farvegi.

Ráðuneytið hefur nú óskað eftir því við Íslenska ættleiðingu að fá öll gögn sem félagið hefur undir höndum um ættleiðingar frá Sri Lanka til varðveislu og skoðunar í ráðuneytinu.

Uppkomnum ættleiddum sem vilja hafa beint samband við ráðuneytið er bent á netfangið [email protected]

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum