Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Ályktun Íslands og Þýskalands um ástand mannréttinda í Íran samþykkt

Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar af skjá í sal mannréttindaráðsins í Genf - mynd

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í dag ályktun Íslands og Þýskalands um að stofnuð verði sjálfstæð og óháð rannsóknarnefnd sem safna á upplýsingum og gögnum sem nýst geta til að draga þá til ábyrgðar sem ofsótt hafa friðsama mótmælendur í Íran undanfarnar vikur. Ályktunin var lögð fram í tengslum við sérstakan aukafund mannréttindaráðsins um hríðversnandi ástand mannréttindamála í Íran sem fram fór í dag. Utanríkisráðherrar Íslands og Þýskalands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Annalena Baerbock, tóku þátt í umræðunni.

Undanfarnar vikur hafa fjölmenn mótmæli geisað í Íran þar sem konur og stúlkur í broddi fylkingar hafa krafist þess að njóta grundvallarmannréttinda. Stjórnvöld hafa tekið mótmælendum af fádæma hörku og er talið að á fjórða hundrað hafi látið lífið síðan mótmælahrinan hófst, þar af um fjörutíu börn, og þúsundir sitja í varðhaldi. Ísland og Þýskaland fóru því fram á við mannréttindaráðið að sérstakur aukafundur yrði haldinn á vettvangi ráðsins og studdi á sjötta tug aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna þá beiðni.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra minntist í ræðu sinni Jina Mahsa Amini, ungrar konu af kúrdískum uppruna sem lést í varðhaldi írönsku siðgæðislögreglunnar í september síðastliðnum, en dauði hennar var kveikjan að mótmælunum sem nú standa yfir.

„Það er ofvaxið mínum skilningi að stjórnvöld í nokkru ríki ákveði að brjóta svo víðtækt og alvarlega á mannréttindum borgaranna sem þeim ber einmitt skylda til að vernda. Um leið dáist ég að kjarki fólksins í Íran sem leggur sig í lífshættu við að krefjast á friðsaman hátt bæði frelsis og jafnréttis,“ sagði Þórdís Kolbrún í ávarpinu.

Ráðherra brýndi svo aðildarríki ráðsins að samþykkja ályktun sem Ísland og Þýskaland lögðu fram í ráðinu um að stofnuð verði rannsóknarnefnd sem hefja muni söfnun á upplýsingum og gögnum um yfirstandandi atburði og leggja þannig betri grundvöll að því að hægt sé að draga gerendur til ábyrgðar. Ályktunin var borin undir atkvæði síðdegis í dag og var hún samþykkt með 25 atkvæðum, 6 greiddu atkvæði gegn og 16 sátu hjá.

„Það er skylda okkar að sýna írönskum konum og öðrum landsmönnum samstöðu. Með samþykkt mannréttindaráðsins í dag sendir alþjóðasamfélagið klerkastjórninni í Teheran skýr og afdráttarlaus skilaboð. Í dag var stigið mikilvægt skref í þá átt að draga þau til ábyrgðar sem staðið hafa fyrir eða fyrirskipað grimmdarverk gegn saklausum borgurum. Ég vona þeirra vegna og allra sem um sárt eiga að binda vegna hrottafenginnar framgöngu íranskra yfirvalda að þetta sé aðeins eitt skref af mörgum í þeirri viðleitni,“ segir Þórdís Kolbrún.

Í tengslum við umræðuna héldu þær Þórdís Kolbrún og Baerbock stuttan blaðamannafund. Síðdegis hitti svo utanríkisráðherra Volker Türk, nýskipaðan mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, þar sem framlag Íslands til skrifstofu mannréttindafulltrúans, framboð Íslands til mannréttindaráðsins 2025-2027 og staða og horfur í mannréttindamálum í heiminum voru í brennidepli. Þá hitti utanríkisráðherra Javaid Rehman, sérstakan skýrslugjafa um stöðu mannréttindi í Íran en Ísland leiðir árlega ályktun mannréttindaráðsins sem umboð hans byggir á.

 

 

  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í sal mannréttindaráðsins í Genf - mynd
  • Af blaðamannafundi utanríkisráðherra Íslands og utanríkisráðherra Þýskalands, Önnulenu Baerbock. - mynd
  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Volker Türk, mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum